154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Af gefnu tilefni kem ég hér til þess að koma með smá upprifjun. Ég er ítrekað að heyra formann Landssambands eldri borgara tala um það að hér séu engir á Alþingi Íslendinga sem kæri sig um hag og velferð eldra fólks. Ég ætla að mótmæla því harðlega, enda tel ég að Flokkur fólksins hafi sýnt það í þau sjö ár sem hann hefur verið hér við störf að við erum málsvarar þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu sem og eldra fólks og öryrkja.

Ég vil nefna nokkur þingmannamál, 15 skulum við segja, sem Flokkur fólksins hefur þegar lagt fram á Alþingi Íslendinga nú í haust. Það fyrsta eru almannatryggingar, fjárhæðir fyrir launavísitölu. Við erum hérna með afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna og mun ég mæla fyrir því máli eina ferðina enn í dag. Það er almannatryggingafrítekjumark vegna lífeyristekna. Þar höfum við verið með frumvarp um að hækka viðmiðið úr 25.000 kr. upp í 100.000, eins og einmitt Félag eldri borgara hefur kallað eftir. Við erum með félagslega aðstoð, bifreiðastyrk. Við erum með félagslega aðstoð lífeyrisþega sem eru búsettir erlendis þannig að þeir þurfi ekki að greiða fyrir þá millifærslu sem þeir greiða nú fyrir þegar Tryggingastofnun leggur inn hjá þeim. Við erum hér með málefni aldraðra vegna sambúðar. Við viljum að fólk fái að búa saman hvar sem það er. Við erum með sjúkratryggingar. Við erum með tannheilbrigðisþjónustu þar sem við viljum afnema allan virðisaukaskatt af hjálpartækjum og öðru slíku fyrir eldra fólk. Við erum með afnám vasapeningafyrirkomulagsins sem hefur verið kallað eftir frá hagsmunafulltrúa aldraðra um árabil. Við erum með búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, skattleysi launatekna undir 400.000, almannatryggingar, aldursviðbót, þannig að sá sem er öryrki og verður eldri borgari lækki ekki við það í neinum launum. Við erum með afkomu öryrkja og ellilífeyrisþega að kjaraviðræðum og við erum með samstarfsverkefni (Forseti hringir.) til að fjölga fastráðnum heimilislæknum á landsbyggðinni.

Ég ítreka aftur og skora á formann Landssambands eldri borgara að kynna sér (Forseti hringir.) þau mál sem Flokkur fólksins hefur af hug og hjarta barist fyrir hér í sjö ár áður en hann segir að hann horfi hér í tóm augu marg-, margsinnis og fái hér ekkert nema innantóm loforð um ekki neitt, því að það er rangt.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður við 2 mínútur.)