154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu og skýringar á afstöðu sinni og síns flokks varðandi þennan fjárauka. Varðandi samþykktir Bríetar, svo að það sé sagt, þá var ég ekki að reyna að koma að í minni ræðu réttlætingu á einhverjum vinnubrögðum eða hvort þau væru góð eða slæm. Ég var hins vegar að benda á þá staðreynd og þá stöðu að eftir umræður í fjárlaganefnd, m.a. eftir athugasemdir frá hv. þingmanni og fleiri þingmönnum í fjárlaganefnd sem kölluðu eftir því að samþykktum yrði breytt — það er algjörlega rétt að þessar athugasemdir komu líka fram í afgreiðslu málsins fyrir jól þar sem efasemdir komu upp varðandi samþykktir Bríetar og heimild félagsins til að eignast fasteignir á höfuðborgarsvæðinu. Það eina sem mér gekk til í þessari ræðu minni áðan var að benda á það að á þessar athugasemdir hefði verið hlustað þrátt fyrir að Bríet teldi með því lögfræðiáliti sem gert var í innviðaráðuneytinu að heimildirnar dygðu og samþykktirnar væru nægar, en til þess að taka af allan vafa hefðu menn ákveðið að fara þessa leið.

Varðandi söluna eftir þrjú ár verð ég að viðurkenna að eins og staðan á húsnæðismarkaðnum er í dag, og sú þróun sem við sjáum á næstu árum er kannski svolítið óljós, þá vitum við ekki hverju þessi aðgerð mun skila í raun og veru, sérstaklega þessi uppkaup sem fyrirhuguð eru. Ég verð bara að taka undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) og held að það komi alveg til skoðunar að endurskoða þessa ákvörðun eftir þrjú ár ef tilefni er til.