154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:06]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðið er sívirk auðlind. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra vegna bókunar 35 við EES-samninginn. Fátt nýtt er að frétta eftir yfirlestur skýrslunnar; snyrtileg samantekt, sögubútar og valdar lögskýringar. Fullyrðingar um að framsal löggjafarvalds sé eiginlega ekki framsal löggjafarvalds. Við erum jú enn og aftur minnt á að fullveldið er aldrei sjálfgefið og kostar sífellda baráttu. Tilgangurinn með bókun 35 er að setja ákvæði inn í íslensk lög til að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur. Á síðasta þingvetri sáum við einmitt frumvarp sem ætlað var að hnykkja á forgangi laga sem eiga uppruna sinn í lögum frá Evrópusambandinu og fjalla af einhverjum ástæðum einnig um stjórnvaldstilskipanir af sama tagi sem eru jafnvel til þess fallnar að auka flækjustig stjórnkerfisins. Frumvarp utanríkisráðherra til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, sem varðar bókun 35 um forgangsröð laga í íslenskum rétti, var mál af þeirri stærðargráðu að það þarfnaðist vandaðrar umfjöllunar, mál sem vekur spurningar um stjórnarskrármálefni.

Sú samantekt um bókun 35 sem við ræðum hér er ekki upphaf eða endi neins og bætir ekki miklu við það sem kom fram í fjölmörgum umsögnum og máli gesta í umfjöllun um málið þar sem skilið var við það síðastliðið vor. En þá var mikil vinna enn óunnin við yfirferð málsins því að ljóst var að frumvarpið þurfti að veigamikilla lagfæringa við ef það ætti fram að ganga. Ekkert hefur enn komið fram hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir 30 ár. Svo sannarlega er ekki að finna rökstuðning fyrir slíku sem í er hald í þessari samantekt. Málið varðar stjórnarskrá og mikilvægt er að stíga varlega til jarðar. Ein stór spurning stendur enn þá eftir: Hvers vegna voru slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar ekki uppi á borðum þegar fjallað var um EES-samninginn á sínum tíma og hann samþykktur á Alþingi, að setja yrði ákvæði inn í íslensk lög til þess að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur? Nú tala jafnvel fyrrverandi þingmenn sem þá sátu á þingi, og hafa síðan gerst sjálfskipaðir sérfræðingar um EES-samninginn og skuldbindingar honum tengdum, um vonum seinni efndir á meintri skuldbindingu sem íslenska ríkið tók á sig við gerð EES-samningsins, skuldbindingu sem hvorki þeir eða aðrir sem til þekktu færðu orð að þegar málið var til umfjöllunar.

Þessu var öðruvísi farið í Noregi. Þar átti sér stað upplýstari umræða og ákvarðanataka um þætti samningsins er vörðuðu fullveldisframsal. Voru þeir sem báru málið fram á sínum tíma, EES-samninginn, hræddir við að hann myndi mæta meiri andstöðu ef áhöld væru um að fyrirvarar við bókun 35 og það fullveldisafsal sem hún felur í sér héldi. Beinagrindin í skápnum, upplýsingaóreiða þess tíma, blekkingar eða hrekkleysi. Gaman hefði verið að sjá umfjöllun um þessi efni og svör í samantektinni sem við ræðum hér, samantekt sem ég tel ekki ástæðu til að dvelja lengi við hér. Ekkert bendir til þess að eftir 30 ár liggi núna lífið við.