154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég tek bara undir það og ætla að byrja þar sem hún endaði og í raun og veru á seinni spurningunni er varðar arðgreiðslurnar. Mér finnst bara sjálfsagt — og eins og hv. þingmaður nefndi þá vorum við í nefndinni að reyna að vinna þetta hratt en vanda vel til verka og auðvitað getur ýmislegt gerst. Ef þetta er réttur skilningur hv. þingmanns þá finnst mér sjálfsagt og eðlilegt í raun að nefndin taki það til skoðunar.

Varðandi hitt þá fannst mér ég fara ágætlega yfir það í framsögu minni að við þurfum, bara vegna þeirrar óvissu sem til staðar er á Reykjanesskaga þessa dagana, mánuðina, að vera stöðugt með þau úrræði sem við höfum hér verið að samþykkja til skoðunar og ef ég hef skilið spurningu hv. þingmanns rétt þá finnst mér bara sjálfsagt og eðlilegt að það gildi, eins og ég sagði í framsögu minni, um þetta úrræði líka eins og öll önnur úrræði. Við höfum rætt það í nefndinni að auðvitað er þetta þannig að við erum einhvern veginn með einhverjum hætti að reyna að horfa á heildarlausn, þó að hún grípi ekki alla, að það sé einhver samfella í því sem við erum að gera. Þetta mál er bara ein keðjan í þessari keðju allri saman. Þannig að mér finnst alveg eðlilegt, líkt og við skoðum önnur úrræði, að við séum að skoða þetta og gildistímann og svona bara í ljósi þess og miðað við það hvernig aðstæður munu þróast á Reykjanesskaga og jafnvel annars staðar á næstu mánuðum og árum.