154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[20:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er komið að ákvæðinu sem ég vísaði til áðan varðandi endurgreiðslur. Þar stendur í 9. gr., með leyfi forseta:

„Ef aðili sem fengið hefur rekstrarstuðning samkvæmt lögum þessum greiðir út arð, kaupir eigin hlutabréf eða ráðstafar með öðrum hætti fé til eigenda sinna, öðruvísi en í formi launa eða til samræmis við skuldbindingu sem stofnað var til fyrir 7. febrúar 2024, fyrir 1. maí 2025 skal hann endurgreiða þann rekstrarstuðning sem hann hefur fengið.“

Þetta ákvæði er enn þá alveg óbreytt frá því að frumvarpið var lagt fram en það þyrfti að framlengja það um ársfjórðung í samræmi við í raun gildistíma úrræðisins og tímann sem fólk hefur til að sækja um úrræðið. Það verður sem sagt gert á eftir til að gæta samræmis, enda finnst mér ekki eðlilegt að frestur eða skilyrði um að greiða sér ekki út arð gildi í þrjá ársfjórðunga, það virkar frekar skakkt.