154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

grunnskólakerfið á Íslandi.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra hljómaði í lokin eins og Terminator: Ég kem aftur. En sjö ár, virðulegi forseti, sjö ár. Ríkisstjórnin ætlar ekki að axla ábyrgð á því ástandi sem blasir við í skólum landsins. Það dugar ekki að mínu mati, þrátt fyrir góðan hug, að ríkisstjórnin dembi bara verkefnunum inn í skólana án þess að fjármagn eða annar stuðningur fylgi með. Það er ekki boðlegt lengur. Við verðum að tala um hópastærðir. Við verðum að tala um það hvernig við getum fundið tíma fyrir kennara til að sinna því sem þeir eru bestir í, að kenna. Námsgögn hafa staðið í stað síðan 2008 per haus. Allt þetta eru verkefni sem þessi ríkisstjórn í sjö ár hefur ekki sinnt að mínu mati. Það þýðir ekki að láta þetta verða (Forseti hringir.) eingöngu verkefni skólanna af því að þetta hefur verið þannig að skólarnir fá verkefnið og það er bara þeirra að finna út úr því. Þeir þurfa stuðning, (Forseti hringir.) skólafólkið okkar allt þarf stuðning og börnin okkar þurfa að finna raunverulega fyrir því að við ætlum að byggja upp menntakerfi sem er jöfnunartæki og tækifæri til að auka lífsgæði og möguleika fólks til skemmri og lengri framtíðar.