154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[16:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hefur átt sér stað hér í dag og ég tel mjög mikilvæga. Mig langar að drepa á nokkur atriði hérna í seinni ræðu. Í fyrsta lagi hefur verið minnst hér á Noreg og að það sé komin upp pólitísk umræða í Noregi. Ég hef ekki heyrt þá umræðu á opinberum vettvangi a.m.k., en minni á að Norðmenn hafa tvisvar sinnum farið í þjóðaratkvæðagreiðslu; árið 1972 þar sem þeir höfnuðu aðild að Evrópusambandinu og svo 20 árum seinna, árið 1993, þar sem þeir höfnuðu aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu aðild að ESB. Ég hef ekki heyrt að það sé í kortunum að fara í þriðju þjóðaratkvæðagreiðsluna um það mál sem hefur klofið norskt samfélag með reglulegu millibili, a.m.k. tvisvar. Þetta er líka eitt ríkasta samfélag heims og það er engin ástæða fyrir því að þeir fari inn í ESB. Hagsmunum þeirra er vel borgið sem olíu- og gasframleiðandi fyrir Evrópu og ég get ekki séð nein efnahagsleg rök fyrir því. En ég tala ekki fyrir hönd Noregs.

Það eru atriði sem mig langar að koma inn á sem lúta að bókun 35 og hæstaréttardómnum sem féll í síðustu viku. Þetta er dómur nr. 24/2003. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að í þingræðisríki er ekki Hæstiréttur sem ræður gangi mála hvað þetta varðar, svo það liggi fyrir. Þar er fjallað um forgangsreglur, bæði skráðar og óskráðar. Hinar óskráðu reglur eru að æðri reglur ganga framar lægra settum. Það er stjórnarskráin sem gengur framar almennum lögum. Það er engin flokkun innan almennra laga um gildi þeirra. Svo eru hins vegar reglur sem lúta að því að sérlög ganga framar almennum lögum. Önnur regla er að yngri lög ganga framar eldri. Þetta er allt til að hafa lagasamræmi og svo menn geti ákveðið hvaða lagaregla á við. Svo tekur Hæstiréttur dæmi um þrjár skráðar forgangsreglur af ýmsu tagi og það er t.d. í lögum um lagaskil á sviði samningaréttar, sem eru lög nr. 43/2000. Þar er fjallað um að ákveðnar reglur, sem sagt skuldbindingar sem felast í EES-samningnum, skuli ganga framar. Í lögum um lagaskil á sviði samningaréttar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Ákvæði laga þessara eiga við um allar einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi þegar taka þarf afstöðu til þess lögum hvaða lands skuli beitt.“

Það eru samskipti Íslands við umheiminn sem þessi lög fjalla um.

Það er líka minnst á lög um ársreikninga í hæstaréttardómnum. Þar er fjallað um alþjóðlega reikningsskilastaðla og þar er sagt að alþjóðlegir reikningsskilastaðlar gangi framar fyrir félög sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsstöðlum. Að sjálfsögðu ganga alþjóðlegir reikningsskilastaðlar framar í félögum sem eiga að beita þeim stöðlum, svo einfalt er nú það. Það er líka af því að þarna eru samskipti við útlönd. Það sama á við þriðja dæmið sem Hæstiréttur tekur, það er alþjóðasamningur um samræmingu tiltekinna reglna um loftflutninga milli landa, alþjóðasamningur sem gerður var í Montreal 1999. Það segir í lögum um loftferðir að „ákvæði þessa kafla og Montreal-samningsins ganga framar þeim alþjóðasamningum sem lögfestir eru samkvæmt lögum um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa“ — það er af því að við erum jú að fljúga frá Íslandi til annarra landa. Við þurfum ekki að setja sérreglur hvað þetta varðar af því að við erum bundin af alþjóðasamningum og erum í samskiptum við önnur ríki.

Varðandi bókun 35 þá varðar hún réttarstöðu Íslendinga á Íslandi, t.d. eins og fæðingarorlofið sem fjallað er um í hæstaréttardómnum og þá þarf að sjálfsögðu líka að taka tillit til tekna erlendis, það segir sig sjálft. Hæstiréttur tekur síðan fram í dómnum og vísar til þess að 3. gr. laga nr. 2/1993 í dómaframkvæmd réttarins hafi aðeins verið talin fela í sér reglu við lögskýringu um túlkun laga til samræmis við EES-samninginn. Svo segir: „Þannig hefur ekki verið lagt til grundvallar að það ákvæði feli í sér almenna forgangsreglu í samræmi við bókun 35.“

Þessi bókun 35 er alþjóðleg regla og er þjóðréttarleg skuldbinding. Svo fjallar Hæstiréttur um skaðabótaskyldu, þar sem borgarar geta krafið ríkið um skaðabætur sé íslenska ríkið að veita minni rétt. Það er það kerfi sem við höfum búið við síðastliðin 30 ár. Það er það kerfi sem við eigum að halda. Það hefur gengið vel og miklu betur en í Noregi, ef við horfum á NAV-málið í Noregi sem er alveg hræðilegt, 80 manns settir í fangelsi og 2.400 manns krafðir um endurgreiðslu. (Forseti hringir.) Þetta hefur gengið vel. Ég er stuðningsmaður EES-samningsins en ég óttast að ef við stöndum ekki í lappirnar muni þessi samningur sigla í strand.