154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

sólmyrkvi.

603. mál
[17:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021 og annast Umhverfisstofnun umsjón og rekstur svæðisins. Látrabjarg allt er um 14 km langt en sá hluti þess sem er innan friðlandsmarka er 9,7 km. Í ljósi nýlegrar umfjöllunar um almyrkva á sólu 2026 ráðgerir stofnunin, þ.e. Umhverfisstofnun, að hefja samtal við hlutaðeigandi aðila á næstunni ásamt því að kanna til hvaða viðbragða og stýringa hægt er að grípa í tengslum við álag sem myndast við mjög aukna en tímabundna gestasókn á skömmum tíma. Það álag snýr einkum að gróðri og innviðum sem eru takmarkaðir á svæðinu. Meðal annars er nú til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum að styrkja innviði á svæðinu með hliðsjón af sólmyrkvanum. Þá má benda á að um miðjan ágúst er fuglavarpi lokið. Þá má einnig benda á að ekki er aðgengi fyrir ferðamenn að sjálfu varpinu og athafnasvæði fugla í bjargveggnum og ekki er mikil hávaðamengun af gangandi ferðamönnum og fátt sem bendir til að gangandi ferðamenn hafi áhrif á fuglinn.

Til að fara dýpra í þetta mun Umhverfisstofnun að lágmarki bregðast við á Látrabjargi í formi tímabundinnar aukinnar landvörslu, upplýsingagjafar og skipulags á bjargbrún og stýringar í kringum bílastæði og innviði á Bjargtöngum eftir þörfum. Málið mun verða rætt í samstarfsnefnd um friðlandið Látrabjarg. Ef raunin er sú að sannarlega megi búast við þúsundum ferðamanna ofan á þá gesti sem fyrir eru og sýnt þykir að innviðir á Bjargtöngum muni ekki bera álagið mun Umhverfisstofnun eiga samtal við landeigendur og/eða ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Það samtal myndi m.a. snúa að landeigendum sjálfum og þeirra viðhorfi til þess hvort skoða ætti möguleika á því að bjóða upp á rútuferðir á svæðið, í stað þess að stór hluti komi á einkabílum, og að álaginu sé dreift á tvo staði sem yrðu sæmilega aðgengilegir gangandi frá bílastæðum að bjargbrún. Skoða þyrfti hvort koma þyrfti upp tímabundinni salernisaðstöðu og hvort nauðsynlegt væri að setja upp einhvern ramma varðandi fjölda með tilliti til álags á gönguleiðir, gróður og þá sem dvelja í byggðinni í Látravík.

Fyrst og fremst snýst þetta um álag á innviði, gróður og fólk. Gangandi ferðamenn hafa ekki aðgengi að varp- og athafnasvæði fuglanna í bjargveggnum, ferðamátinn er hljóðlítill og fátt sem bendir til að hann myndi hafa áhrif á fuglinn eins og áður er nefnt. Þótt um nokkuð ólíka viðburði sé að ræða þá hefur Umhverfisstofnun öðlast mikla reynslu í því hvernig bregðast á við stórauknu álagi vegna gestasóknar með skömmum fyrirvara vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga. Sú reynsla mun hjálpa stofnuninni í sinni vinnu vegna þessa viðburðar.