154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra lét þau ummæli falla á Facebook að Landsbankinn fengi ekki að kaupa tryggingafélagið TM á sinni vakt án þess að samhliða færi fram einkavæðing Landsbankans vöknuðu upp áleitnar spurningar. Hvers vegna talaði ráðherrann eins og hún hefði það yfir höfuð í hendi sér að einkavæða Landsbankann þegar fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur sammælst um að gera það ekki? Hvers vegna mætir ráðherra í samfélagsumræðuna með innantómar hótanir um einkavæðingu ef banki í ríkiseigu gerir ekki það sem ráðherrann vill? Það er eitt að hóta þessu, virðulegi forseti, en ég næ í alvöru ekki utan um það að ráðherra hóti aðgerð sem hún veit að hún getur ekki staðið við. Hvert var markmiðið með því, hæstv. ráðherra?

En áfram um hótanir. Ráðherra hefur sagt að þessi viðskipti muni ekki eiga sér stað á hennar vakt. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hún standa við það? Mun hún leita leiða til að skipta út stjórn Landsbankans og rifta samningnum eða voru það líka innantómar hótanir?