154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[17:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við glímum við ákveðinn markað þar sem er fákeppni og alls konar leiðindi sem því fylgja og líka mál sem snúast í rauninni um ákveðnar skyldur stjórnar. Í þessu máli átti stjórnin að upplýsa Bankasýsluna og Bankasýslan átti að gera eitthvað í því. Bankasýslan gerði ekkert í því. Hversu mikil ábyrgð þar er, áframhaldandi, verður áhugavert að sjá á næstunni. En það er áhugavert að sjá í þessu samhengi núna akkúrat að það er mánuður í að það verði tveggja ára afmæli þess að ríkisstjórnin lýsti því yfir að það ætti að leggja niður Bankasýsluna. Til hamingju með afmælið eftir mánuð.

Að reka Landsbankann samkvæmt ýtrustu gróðasjónarmiðum til að hámarka arðsemi og verðmæti bankans, eins og fyrrverandi fjármálaráðherra lagði upp með, til að hámarka andvirði bankans, þýðir að viðskiptavinir bankans borga. Ríkið heimtar arð og Landsbankinn hámarkað hagnað, með hærri vöxtum t.d. sem allir borga, líka viðskiptavinir annarra banka af því að samkeppnissjónarmiðin eru ekki til staðar.

Við verðum eiginlega að klóra okkur aðeins í hausnum varðandi þetta allt, varðandi ríkisrekstur og Sjálfstæðisflokkinn og banka. Það er búið að vera voðalega flókið að átta sig á þessu þangað til maður pælir í því að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ríkisrekstur, vill selja allt sem ríkið á þegar allt kemur til alls. Hvers vegna treystum við flokki sem vill einfaldlega selja allar eigu ríkisins til að reka ríkið? Almennt séð erum við sammála um að ríkisrekstur, sérstaklega í fákeppnisumhverfi, sé nauðsynlegur eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og ýmislegu svoleiðis. Til hvers erum við þá að velja flokk sem vill einmitt ekki ríkisrekstur? Mér finnst það áhugaverður snúningur á þessu.

Það sem vandamálið snýst um gagnvart ráðherra hins vegar í þessu eru yfirlýsingar ráðherra í kjölfarið á því sem upp komst hérna, að Landsbankinn væri að kaupa TM. Þær eru áhugaverðar því að þar stígur ráðherra inn á þetta svið með pólitískar yfirlýsingar og aðilar eins og Bankasýslan eru allt í einu orðnir hlutdrægir gagnvart slíkum yfirlýsingum, geta síður sinnt sínu faglega hlutverki sem því miður er ekkert rosalega mikið. En maður verður að vonast til þess að fólk fari eftir lögum og reglum.