154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[14:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvarið. Við höfum nú rætt þetta inni í fjárlaganefnd og ég er mjög meðvitaður um afstöðu og skoðun hv. þingmanns í þessu máli og er að mörgu leyti mjög sammála honum í því að sú staða sem við erum að horfa á hér varðandi staðfestingu ríkisreiknings og sá ágreiningur sem þar er milli aðila er ekki boðlegur. Hv. þingmaður hefur verið töluvert lengur en ég í hv. fjárlaganefnd en ég veit ekki til þess að nefndin hafi tekið eins sterkt til orða í sínu nefndaráliti og við gerum þó núna í því nefndaráliti sem liggur fyrir, þar sem við erum beinlínis að segja að þetta ástand verði að laga, að þetta sé ekki boðlegt. Alþingi getur ekki setið uppi með það að þessir aðilar, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða Fjársýslan eða fjármálaráðuneytið, geti ekki komið sér saman um það hvernig eigi endurskoða ríkisreikning. Sá vafi, sú túlkun — það verður bara að leiða þann ágreining í jörð. Þar er ég algerlega sammála hv. þingmanni.

Við erum að taka mjög sterkt til orða í þessu nefndaráliti, sterkar en hefur verið tekið til orða áður. Samtalið er í gangi og ég hef væntingar til þess að orð fjárlaganefndar, sem klárlega eiga að vega þungt inn í þessa umræðu geri það þannig að þessir aðilar fari nú í alvöru að tala sig niður á einhverjar lausnir og við þurfum ekki að sitja uppi með þetta til langframa. Auðvitað getur alltaf verið einhver ágreiningur en í þessu mæli, eins og hefur komið fram hér og hefur verið árum saman, það er ekki boðlegt fyrir fjárlaganefnd og fyrir þingið.