154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:30]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Við getum haldið áfram að rífast um innihald frumvarpsins fram á kvöld. En af því að hér er verið að tala um bændur þá vil ég líka minnast á neytendur sem óttast um afkomu sína. Þeir eru að glíma við breytingar á verðlagi á degi hverjum, þeir eru að glíma við háa vexti og háa verðbólgu. Það er eðlilegt að fólk óttist um afkomu sína þegar það er búið að heimila samráð sem gerir það að verkum að menn geta bara ákveðið sín á milli hvaða verð á að vera. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli í þessu er verklagið. Er rétt að vinna svona inni á Alþingi þegar er verið að koma með breytingartillögur? Eiga breytingartillögur að fara til umsagnar í ráðuneytinu eða ekki? Á bara stundum að gera það en sleppa því þegar það hentar einhverjum ákveðnum hópum? Ég bara spyr um verklagið, virðulegur forseti. Eftir hverju erum við að vinna hérna?