131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:03]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ræða hæstv. fjármálaráðherra var bæði athyglisverð og efnismikil svo að ég noti þau tvö lýsingarorð sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra notaði um ræðu hæstv. núverandi forsætisráðherra í umræðunum í gærkvöldi. Hvorugt orðið segir reyndar mikið um afstöðu þess sem þau notar til viðfangsins. En inntakið í henni var kannski það helst að koma því til skila til Íslendinga að hér væri allt í blóma og allt væri gott, það hefðu orðið mikil efnahagsumskipti á valdatíma Sjálfstæðisflokksins og honum bæri að þakka allt það góðæri sem hér er.

Það er rétt að hér hafa orðið mikil umskipti í efnahagsmálum á undanförnum árum. En það er hins vegar full ástæða til þess að þakka það ýmsu fleiru en Sjálfstæðisflokknum. Og það er ekki hægt að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir hvaða áhrif hann hefur haft á það hvernig þessum gæðum hefur verið skipt á milli landsmanna því að þar hafa verið settir hjá ýmsir aðilar í samfélaginu sem ekki er boðlegt í jafnríku samfélagi og er á Íslandi. Rík þjóð hefur nefnilega miklar skyldur og það er engin afsökun fyrir ríka þjóð að standa ekki vel að málum gagnvart þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Það er engin afsökun fyrir því að atvinnulausir, aldraðir eða öryrkjar hafi ekki þokkalega afkomu í þessu ríka samfélagi, en það hafa þeir ekki. Þetta hefur verið viðfangsefni stjórnmálanna undanfarin ár, og það eru ekki bara þessir hópar sem hafa verið settir hjá því að á þessum valdatíma hefur í raun og veru farið fram tilfærsla á sköttum þar sem þeir sem lægri launin hafa hafa borið þyngri og þyngri byrðar af sköttum eftir því sem árin hafa liðið. Og enn ætla menn að halda áfram á þeirri sömu braut og finnst ekki nóg komið. Enn skulu skattalækkanirnar koma þeim til góða sem mest hafa fyrir og hafa svo sem enga sérstaka þörf fyrir skattalækkanir.

Ég taldi að í umræðunum sem fram fóru fyrir síðustu alþingiskosningar hefði komið fram að menn ætluðu að fara að breyta um kúrs, a.m.k. ætlaði Framsóknarflokkurinn að gera það. En við fáum aldeilis önnur skilaboð í umræðum hér, í viðræðum við hæstv. fjármálaráðherra í sjónvarpi og skilaboðum sem ganga um sali þingsins, að Framsóknarflokkurinn standi í vegi fyrir því að hægt sé að taka á virðisaukaskattinum sem kæmi öllum fjölskyldum í landinu til góða. Ég held að það væri rétt að menn kæmu og útskýrðu hvað það er sem er svona erfitt við þennan virðisaukaskatt og hvers vegna Framsóknarflokkurinn stöðvar framgang málsins í ríkisstjórninni. Það væri, held ég, ástæða til að það gerðist við þessa umræðu að menn upplýstu hvaða vandamál þetta eru.

Hæstv. nýkrýndur forsætisráðherra sagði að það ætti ekki að breyta stefnunni neitt, stefnan væri góð. Til hvers barðist hann til valda í ríkisstjórninni? Í fyrstu ræðu sinni segir hann: Engu skal breytt, allt verður áfram eins og það var, stefnan var góð. Þurfti þá nokkuð nýjan foringja? Var einhver þörf á því?

Og stefnan skal verða áfram eins og hún hefur verið. Það segir í ræðu hæstv. ráðherra að draga eigi úr draga úr samneyslunni um 2% á ári, þó að það liggi fyrir að menn geri ráð fyrir að verðbólgan verði hærri en það, þannig að samneyslan hlýtur þá að eiga að skreppa saman. Og þá þurfa menn auðvitað að útskýra með hvaða hætti þeir ætla að stýra þeim samdrætti. Hverjir eiga að bera skarðan hlut frá borði þegar samneyslan á að dragast saman? Það hefur ekki verið gert við þessar umræður.

Það er fleira sem virðist angra þennan meiri hluta ríkisstjórnarinnar, fleira sem þeim hefur ekki tekist að ná saman um. Nú segir hæstv. fjármálaráðherra að hann vonist til þess að hægt sé að selja Símann einhvern tíma á næstu mánuðum. Þegar Framsóknarflokkurinn tók við því búi og hófst handa við að fara að selja Símann þá var það hans fyrsta verk að lýsa því nánast yfir að allur undirbúningur væri í skötulíki og það þyrfti að fá ráðgjafa og taka sér góðan tíma til þess að vinna að málinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að hnoðast með málið í fjöldamörg ár og niðurstaðan liggur sem sagt ekki fyrir enn þá. Við vitum ekki hvað verður gert við þá fjármuni ef þeir þá koma til einhverra skipta á komandi árum.

Ætli æðistór hluti af þeim hagnaði sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að hæla sér af á undanförnum árum í ríkissjóði sé ekki einmitt fólginn í því að ríkissjóður hefur verið að selja eignir ríkisins? Það mundi muna um það í búið hjá fjármálaráðherra ef Síminn yrði nú seldur líka. En um það verður auðvitað ekki sátt undir þeim formerkjum sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að hafa. Vonandi stendur Framsóknarflokkurinn í lappirnar og kemur í veg fyrir að niðurstaðan af sölu Símans verði gríðarlega stórt fyrirtæki með einokunartök á markaðnum, sem er auðvitað ekki boðlegt eftir allar umræðurnar sem farið hafa fram hér af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um hvernig taka þurfi á þeim sem hafi einokunartök á markaðnum.

Hæstv. ráðherra talaði um það líka að enn frekari stóriðjuframkvæmdir væru líklegar. Það hafa verið að kvisast út fréttir af því að til standi að halda áfram í stóriðjuuppbyggingu í landinu. En hæstv. fjármálaráðherra kynnti það að nú skyldi skera niður í vegaframkvæmdum og það er svarið við þeirri spennu sem þessar stóriðjuframkvæmdir valda. Og það hefur verið skorið niður í vegaframkvæmdum. Það hefur verið skorið niður, lækkað framlag til framkvæmda í vegamálum um heilan milljarð á hverju ári sl. þrjú ár samkvæmt því sem nú liggur fyrir. Ef menn ætla sér að halda áfram uppbyggingu stóriðju með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár og liggur fyrir að verður núna, hvernig ætla menn þá að leysa úr þeim vandamálum sem skapast í samfélaginu vegna þess að menn gera þær kröfur á ríkissjóð að hann skuli draga saman? Hvenær verður hægt að ráðast í þær framkvæmdir sem þörf er á?

Ég spyr líka: Hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu að menn ætli með einhverjum hætti að koma til móts við þær byggðir landsins sem hafa farið halloka? Ég hafði bundið vonir við að það yrði fyrst og fremst í vegamálum, að þar yrðu stærstu framlögin til að koma til móts við þau byggðarlög sem verst standa í landinu. Það hefur nefnilega yfirleitt reynst best af því sem ríkisvaldið hefur gert. En nú skal skorið niður þar og það hefur ekki komið fram með neinum hætti hvar menn ætla að láta þess sjást stað að koma eigi til móts við þau byggðarlög sem verst standa.

Ég endurtek að mér finnst sú stefna sem rekin hefur verið undanfarin ár og boðuð er áfram ekki samboðin svo ríkri þjóð sem Íslendingum. Hér verða menn að vera það stórir í sniðum að þeir skilji ekki eftir þá sem þurfa á samfélagshjálpinni að halda og skilji ekki heldur eftir byggðarlög eða landsvæði þegar verið er að líta til þeirra framkvæmda sem ríkið getur staðið fyrir og þess afls sem í ríkissjóði býr.