131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:08]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað sagt en að ég hafi orðið fyrir töluverðum vonbrigðum með framlag hæstv. samgönguráðherra til umræðunnar. Það liggur fyrir að samgönguráðuneytið ætlar að taka að sér að skera niður um 2 milljarða til vegaframkvæmda og hæstv. ráðherra hefur engu til svarað öðru en því að fresta eigi jarðgöngum sem búið var að fresta áður um Héðinsfjörð. Ég minnist þess að þegar átak í vegamálum hefur verið kynnt á undanförnum árum ekki með löngum fyrirvara, t.d. það síðasta, mætti hæstv. samgönguráðherra með upptalningu á ýmsum verkefnum sem voru þá á borðinu sem ætti að flýta o.s.frv. En þegar á að skera niður þá eru svörin engin. Þá er ekkert skoðað eða farið yfir heldur virðist þessi tala bara ákveðin til að skera niður í vegaframkvæmdum og hæstv. ráðherra mætir til umræðunnar án þess að útlista það með neinum hætti.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Eftir yfirlýsingar fjármálaráðherra við umræðuna um að það sé að verða ljóst, eða svo virðist vera af orðum hans að framkvæmdir við stóriðju muni halda áfram á Íslandi og nýjar stóriðjuframkvæmdir taki við af þeim sem nú er þegar búið að ákveða, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér framhald á þeim stórkostlegu verkefnum sem eru eftir í vegagerð og vegamálum á Íslandi í því umhverfi sem við búum nú við í samfélaginu ef menn sjá eingöngu samgönguráðuneytið þegar á að ákveða niðurskurðinn? Verður ekki farið að minnka um fjármuni til vegamála og samgöngumála ef svo fer? Það hlýtur að þurfa að velta þessum málum fyrir sér og mér finnst að hæstv. ráðherra hefði þurft að gefa skýrari svör.