131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Staða geðsjúkra og þjónusta við þá.

[14:06]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur verið um þetta alvarlega málefni. Ég fagna því að það virðist vera samstaða hjá þingmönnum um þá meginstefnubreytingu í málefnum geðsjúkra að það eigi að efla þjónustu við þá utan stofnana. Það er einmitt það sem við höfum verið að gera. Ég legg sérstaklega áherslu á þau þverfaglegu teymi sem hafa verið að vinna, bæði í tengslum við barnaspítalann og að fylgjast með þeim sem eru alvarlega sjúkir og koma út af sjúkrahúsum og eflingu starfsins í heilsugæslunni sem snýr að geðsjúkum. Við þurfum að efla þetta starf og höfum verið að vinna að því að efla það.

Við höfum komið á fót samstarfsnefnd þriggja ráðuneyta, hún er búin að starfa í eitt ár, þ.e. dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, til þess að aðstoða við mál alvarlega geðsjúks fólks. Það eru mjög flókin vandamál sem fylgja því sem þessi þrjú ráðuneyti þurfa að vinna saman að. Við þurfum að efla það starf, en við höfum þegar komið því af stað og samstarfsnefndin hefur unnið í heilt ár að þeim málum.

Varðandi sjúkrarúmin. Þegar við erum að leggja áherslu á að þjóna geðsjúkum fyrir utan stofnanir og við höfum þegar fleiri rúm en í nágrannalöndunum, finnst mér skjóta skökku við að hafa hér uppi gífuryrði varðandi rúmin. Við þurfum að efla þessa þjónustu úti í samfélaginu og ég heyri að þorri þeirra sem talað hafa hér er sammála um það. (Gripið fram í: Gripið fram í.)

Ég vil svo nefna sálfræðiþjónustuna. Við höfum því miður ekki ramma til þess að gera þetta núna, en þetta er eitt af því sem við þurfum að huga að. (Forseti hringir.) Því miður er tíminn svo stuttur að það er ekki hægt að gera öllu þessu viðamikla máli skil á örfáum mínútum. Ég verð því að skilja eitthvað eftir á borðinu.