131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:56]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið er náttúrlega til umræðu í heild. Ég veit ekki hvers vegna hv. þm. heldur því fram að ekki megi líta til þeirra ákvæða frumvarpsins sem koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis og það sé eitthvað sem ekki má ræða í þingsalnum, þótt hv. þm. sé á móti tilteknu ákvæði í frumvarpinu. Frumvarpið er m.a. flutt til að taka á málum vegna álits umboðsmanns Alþingis.

Eins og ég benti á í ræðu minni áðan þá hafði þingmaðurinn ekkert fyrir sér í því þegar hún sagði að ekki væri rökstutt í frumvarpinu hvers vegna sérstaklega væri vikist undan því að breyta ákvæðum um þjóðlendumál og ákvarðanir óbyggðanefndar. Ég rakti skýr rök fyrir því. Þannig er sama hvaða atriði ég tek upp og ræði við hv. þm., röksemdafærslan hjá þingmanninum stenst bara ekki þótt hún telji mig skorta rök fyrir mínu máli. Hins vegar stenst ekki röksemdafærsla hv. þm.

Hitt er ljóst að okkur greinir á um ákveðið atriði í frumvarpinu. Það er í sjálfu sér ekki ámælisvert að þingmenn séu ekki sammála um alla hluti í þingsalnum. En það er ekki eina atriðið í þessu frumvarpi. Það eru fleiri atriði í frumvarpinu og m.a. er tekið á málum sem snerta álit umboðsmanns Alþingis.