131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:06]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og flyt ég þessa tillögu ásamt öðrum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeim Jóni Bjarnasyni, Steingrími J. Sigfússyni, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni. Tillögutextinn er svohljóðandi, eins og lesa má á þskj. 16, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að forræði rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma flytjist frá iðnaðarráðherra til umhverfisráðherra og að flokkun vatnsfalla og jarðhitasvæða samkvæmt henni verði lögð fyrir Alþingi til nánari ákvörðunar um verndun og nýtingu þeirra.“

Virðulegi forseti. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem ber heitið Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi — framkvæmdaáætlun til aldamóta var greint frá því að gerð yrði áætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Fyrirmyndin var fengin frá Noregi þar sem lokið var vinnu við að flokka vatnsföll, reyndar ekki bara lokið vinnunni heldur var hún búin að fara tvisvar sinnum í gegnum endurskoðunarferli þegar við hófumst handa og áætlun Norðmanna var sem sagt höfð til hliðsjónar sem fyrirmynd fyrir þá vinnu sem fór fram hér.

Í upphafi var ljóst að íslensk stjórnvöld viku frá aðferðafræði Norðmanna í a.m.k. einu veigamiklu atriði þar sem hérna var ekki gert ráð fyrir að áætlunin væri á forræði umhverfisráðherra heldur iðnaðarráðherra. Umhverfis- og náttúruverndarsinnar voru almennt jákvæðir gagnvart því að hefja ætti þessa vinnu við rammaáætlunina og létu í ljósi vonir um að hún yrði notuð til að friða þau vatnsföll og þau jarðhitasvæði sem ekki væri ásættanlegt að fórna til orkuvinnslu vegna neikvæðra umhverfisáhrifa þó svo að menn gagnrýndu það harðlega strax í byrjun að vinnan skyldi vera á forræði iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra. Einnig gagnrýndu menn að ekki virtist ljóst fyrir fram hvernig farið yrði með þessar niðurstöður sem væntanlega kæmu út úr vinnunni. Það hefur verið gagnrýnt alveg fram á þennan dag.

Í nóvember 2003 voru gerðar opinberar niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunar og gefnar út í veglegu riti sem dreift var raunar líka í þingskjali til þingmanna á síðasta ári ásamt skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra varðandi rammaáætlunina. Sú skýrsla iðnaðarráðherra var lögð fram á þskj. 548 á síðasta löggjafarþingi. Þar gerir hæstv. iðnaðarráðherra grein fyrir því hvernig hún vill líta á meginniðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar en hún segir að það beri að líta á þá vinnu sem grunn fyrir mat á frumáætlunum virkjana og stjórnvöld geti nýtt niðurstöðurnar sem grundvallarstefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum. Þá segir einnig í skýrslunni að iðnaðarráðherra muni geta notfært sér niðurstöðurnar við stefnumörkun í frumrannsóknum ríkisins í orkumálum og við útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa nýrra virkjana. Reyndar eru þessar yfirlýsingar sambærilegar við það sem sagt er í inngangi rits um niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar sem skrifaður er af verkefnisstjóranum eða formanni verkefnisstjórnarinnar, Sveinbirni Björnssyni.

Af því sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt varðandi þetta bæði í ræðu og riti er alveg ljóst að iðnaðarráðherra ætlar sér að taka ákvarðanir á grundvelli þeirrar vinnu sem nú liggur fyrir og stjórnvöld hafa greinilega ekki í hyggju að gefa flokkun þeirri sem fólgin er í niðurstöðum fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar neitt skuldbindandi vægi eða lagagildi. Einnig þar fara íslensk stjórnvöld allt aðra leið en í Noregi eins og áður sagði því að í Noregi tók norska Stórþingið rammaáætlunina til ítarlegrar umfjöllunar og samþykkti hana loks með endanlegri flokkun þeirra vatnsfalla sem hún náði til. Flokkarnir voru fjórir og gildi þeirra var eftirfarandi: Í fyrsta flokkinn áttu að fara þeir kostir sem orkufyrirtækin gátu þá þegar sótt um heimildir til að virkja. Í annan flokkinn fóru þeir kostir sem settir voru í biðstöðu á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir nægileg gögn til að taka afstöðu til þeirra. Í þriðja flokkinn fóru þeir kostir sem alls ekki voru taldir standa orkufyrirtækjunum til boða og þá fyrst og fremst vegna óásættanlegra umhverfisáhrifa. Þó var ekki talið útilokað að kostir í flokki þrjú kæmu einhvern tíma til álita en þó ekki fyrr en vel væri gengið á virkjanakosti í fyrsta flokki. Í fjórða og síðasta flokkinn fóru þeir kostir sem voru taldir verðmætastir út frá náttúruverndarsjónarmiði og þeir voru umsvifalaust friðlýstir.

Segja má að íslensk stjórnvöld hafi sleppt því að kynna aðferðafræði eða fara eftir slíkri aðferðafræði eins og Norðmennirnir fóru eftir og það verður að teljast fráleitt að forræði þessa máls verði áfram á hendi eins af atvinnumálaráðuneytunum sem eðli máls samkvæmt hefur nýtingar- og framkvæmdaáform í fyrirrúmi, eins og komið hefur fram í ræðum þeim sem iðnaðarráðherra hefur haldið um málið og sömuleiðis í þeim plöggum sem iðnaðarráðuneytið hefur gefið út varðandi rammaáætlunina.

Þess vegna flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þessa tillögu en hún gerir ráð fyrir að forræði þessara niðurstaðna rammaáætlunarinnar og áframhaldandi vinna verði framvegis undir yfirstjórn og á ábyrgð umhverfisráðuneytisins. Auk umhverfis- og náttúruverndar fer það ráðuneyti með skipulagsmál sem tengjast náið þeim ákvörðunum sem vinna að rammaáætlun á að leggja grunn að. Sú formbreyting á yfirstjórn rammaáætlunar er einnig brýn vegna framhaldsvinnu að verkefninu en það gefur auðvitað augaleið að hér er um umhverfis- og skipulagsmál að ræða fyrst og fremst en það eru einmitt málaflokkar sem eiga heima í umhverfisráðuneyti en ekki í iðnaðarráðuneyti.

Í niðurlagi skýrslu iðnaðarráðherra sem getið var hér að framan kemur fram að áætlað sé að vinna annan áfanga áætlunarinnar á næstu þremur til fjórum árum. Þeirri vinnu muni stýrt af fámennari verkefnisstjórn en þeirri sem vann fyrsta áfangann og verkefnisstjórnin verði, ef tillögur og hugmyndir hæstv. iðnaðarráðherra ná fram að ganga, eingöngu skipuð fulltrúum frá iðnaðar- og umhverfisráðuneyti auk helstu hagsmunaaðila.

Ég vara við því, hæstv. forseti, að verkefnisstjórnin verði gerð fámennari eða færri einstaklingar komi til með að koma að vinnunni sem framkvæmd verður í áframhaldinu. Það er afar mikilvægt að rammaáætlunin verði áfram unnin á jafnbreiðum grunni og þessi fyrsti áfangi var unninn en segja má að lauslega áætlað hafi um 70 manns átt beina aðkomu að þessari vinnu í gegnum faghópana og verkefnisstjórnina og þá eru eflaust ekki taldir allir sérfræðingarnir sem þessir faghópar leituðu síðan til með ráðleggingar.

Af því sem hér hefur verið fært fram má ljóst vera að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar verður ekki það tæki sem henni var ætlað nema hún lúti forræði þess ráðherra sem fer með umhverfisvernd og skipulagsmál og Alþingi fjalli um hana og taki ákvarðanir með hliðsjón af niðurstöðunum. Það er lykilatriði í framkvæmd rammaáætlunarinnar að vega og meta kostina með tilliti til ólíkra nota í tilfelli vatnsfalla og jarðhitasvæða. Þá þarf að leggja mat á möguleika svæðisins sem virkjanasvæðis annars vegar og hins vegar sem verndarsvæðis. Síðan þarf að bera saman niðurstöðurnar og taka skynsamlegar ákvarðanir út frá heildarhagsmunum.

Hér á landi hefur setið að völdum ríkisstjórn sem talið hefur þjóð sinni trú um að eina bjargræðið í atvinnumálum sé fólgið í mengandi málmbræðslum, eimyrjuspúandi. Í samræmi við þá stefnu hefur verið vaðið hér áfram án allrar fyrirhyggju og ráðist hefur verið í risavaxnar virkjanaframkvæmdir á viðkvæmu hálendi Íslands, framkvæmdir sem eiga eftir að valda óbætanlegu tjóni á risavöxnu landsvæði við norðanverðan Vatnajökul, landsvæði sem nær alla leið til sjávar í Héraðsflóa. Núverandi ríkisstjórn hefur lítið gert til að vega saman ólíka kosti orkuvinnslu til stóriðju annars vegar og náttúruvernd til útivistar og ferðamennsku hins vegar. Umhverfisráðherra þessarar ríkisstjórnar hefur setið í sjálfskipuðu stofufangelsi virkjanaáformanna á meðan iðnaðarráðherra hefur dregið stóriðjuvaltarann yfir allt sem fyrir er. Við sem erum vinstri græn höfum frá stofnun okkar flokks í febrúar 1999 gert allt sem í okkar valdi hefur staðið til að benda þjóðinni og stjórnvöldum á hversu öfugsnúið þetta ráðslag allt er. Með þessari þingsályktunartillögu gerum við enn eina tilraunina og verði hún samþykkt gæti hún orðið nýjum umhverfisráðherra kærkomið tækifæri til að hefja fána umhverfis- og náttúruverndar til vegs í ráðuneyti umhverfismála, leysa þá skúffu í skrifborði iðnaðarráðherra sem umhverfisráðuneytið hefur verið úr álögum.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til umfjöllunar í umhverfisnefnd og síðan til síðari umræðu.