131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:16]

Katrín Fjeldsted (S):

Frú forseti. Þessi tillaga er einföld og skýr og kveður á um að forræði rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma flytjist frá iðnaðarráðherra til umhverfisráðherra og að flokkun vatnsfalla- og jarðhitasvæða samkvæmt henni verði lögð fyrir Alþingi til nánari ákvörðunar um verndun og nýtingu þeirra.

Ég las þessa tillögu með áhuga og greinargerðina sömuleiðis en þar er rakið hvernig staðið var að málum þegar farið var í þá vinnu sem er kölluð rammaáætlun, út frá framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á árinu 1997 sem kallaðist „Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta.“ Þar var greint frá því að gerð yrði áætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Þarna var reynt að leiða saman þessi andstæðu sjónarmið, sem eru annars vegar nýting og hins vegar verndun. Flestir fögnuðu þessu mjög, þetta var samstarf og samráð iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Og þótt margir hefðu viljað að málið væri á borði umhverfisráðherra sættu menn sig við að þetta væri gert svona einmitt af því að það var verið að reyna að brúa bil milli andstæðra sjónarmiða. Mér fannst það mjög jákvætt.

Þetta starf var síðan unnið á árunum 1999–2003 og eftir fjögurra ára vinnu var skilað skýrslu um þá virkjanakosti sem fyrir liggja á Íslandi og vegið og metið út frá ýmsum sjónarhornum hversu hátt ætti að setja náttúruverndarsjónarmiðið og hversu æskilegt væri að virkja á þessum stöðum. Í stuttu máli sagt var nokkuð skýr niðurstaða með um helming þessara virkjana, það vantaði jú upplýsingar um nokkuð stóran hluta þeirra, ég held að fjallað hafi verið um 43 virkjanakosti og einungis voru til næg gögn um 20. En niðurstaða var a.m.k. fengin.

En mér hnykkti nokkuð við þegar ég áttaði mig á því snemma í þessu ferli að það væri ekki ljóst hvað ætti að gera við niðurstöðu rammaáætlunar, fyrsta áfanga, og í skýrslu sem verkefnisstjórnin ásamt iðnaðarráðuneytinu gaf út fyrir tæpu ári er boðað að annar áfangi verði fámennari og það má gera því skóna að einungis iðnaðarráðuneytið skipi í þá verkefnastjórn.

Nú finnst mér ekki aðalatriðið hversu margir eru í verkefnisstjórn af þessu tagi heldur hverjir koma að því að stýra málinu, þ.e. hvort það eru eingöngu atvinnumálaráðuneyti, eins og iðnaðarráðuneytið, eða hvort ráðuneytin eru saman eins og var í upphafi og finnst síðari kosturinn auðvitað allur annar og betri. Það skiptir líka máli að til séu kallaðir þeir sérfræðingar sem best þekkja málin, svokallaðir valinkunnir sæmdarmenn, sem skiluðu sér mjög rækilega inn í verkefnisstjórnina enda voru gæði starfsins í samræmi við það.

Það að fara ekki eftir fyrirmyndinni sem sett var, þ.e. vinnunni sem fengin var frá Noregi, og vista mál af þessu tagi hjá umhverfisráðuneytinu held ég að hafi verið mistök. Hvort þau voru vísvitandi þori ég ekki að segja en ég tel a.m.k. mjög mikilvægt að virkjanakostir framtíðarinnar verði ekki síður á borði umhverfisráðherra en á borði iðnaðarráðherra og legg mikla áherslu á það. Þess vegna er ég mjög hlynnt þessari þingsályktunartillögu því að hún segir einmitt þetta.

Þeir fjórir kostir eða flokkar sem síðasti ræðumaður nefndi hér sem vatnsföll í Noregi féllu í voru: Í fyrsta lagi kostir sem orkufyrirtæki gátu sótt um heimild til að virkja strax. Í öðrum flokki voru biðstöðumál þar sem ekki voru nægar upplýsingar. Í þriðja flokk féllu virkjanakostir sem menn töldu ekki rétt að taka afstöðu til og þóttu ólíklegir og í fjórða lagi þeir kostir sem voru taldir verðmætastir og því friðlýstir. Mér finnst augljóst af lestri skýrslunnar sem kom út á vegum rammaáætlunar og iðnaðarráðuneytisins að þar séu fyrir kostir sem þurfi að friðlýsa en ég hef ekki séð neina hreyfingu í þá átt. Að vísu liggur fyrir ein þingmannatillaga um friðlýsingu Þjórsárvera. Og ég boða hér með að ég ætla að leggja fram og er með í undirbúningi þingsályktunartillögu í svipuðum dúr til að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað í ljósi þess sem fram kemur í rammaáætlun þannig að friðlandsmörkin taki mið af náttúrufari og landslagi og því verði jafnframt lýst yfir að fallið sé frá öllum virkjanaáformum á svæðinu. Að auki, segir í þessari væntanlegu þingsályktunartillögu, að einnig verði sótt um að Þjórsárver komist á heimsminjaskrá UNESCO.

Eins og margir vita voru tveir merkir fræðimenn og vísindamenn á ferð um landið í sumar sem báðir hafa komið að heimsminjaskrá UNESCO og áttu þátt í því að Þingvellir voru metnir inn á þá skrá. Samkvæmt áliti þeirra beggja kæmi þetta vel til greina. Ég tel því rétt að láta á það reyna fyrir hv. Alþingi að fá þessa þingsályktunartillögu mína samþykkta.

En, forseti, eins og ég sagði áðan, tek ég heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu. Mér finnst hún rétt skref og ég tel eðlilegt að umhverfisráðherra hafi forræði í þessu máli, í versta falli báðir ráðherrarnir, en alls ekki eingöngu iðnaðarráðherra.