131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:36]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín var mjög skýr. Hún var um það hvað líður aðgerðum til þess að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, landsbyggðarfyrirtækja gagnvart fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Ég tók hér dæmi um skattkerfisbreytingarnar 2001, hvernig þær gögnuðust höfuðborgarfyrirtækjunum en engan veginn landsbyggðarfyrirtækjunum vegna þess að þau borguðu ekki mikla skatta fyrir. Þau borguðu jafnvel enga eignarskatta en þau þurftu í framhaldi af þessari skattkerfisbreytingu að borga hærra tryggingagjald. Ég tók hér tölur um þessar breytingar. Svo kemur hæstv. iðnaðarráðherra og ber það af sér og segir að skattamál falli ekki undir sig. Víst er það alveg hárrétt og það vita allir að sem betur fer heyra skattamál ekki undir hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég tek þetta sem dæmi um ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra er aðili að. Þarna var verið að íþyngja atvinnurekstri á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgaratvinnurekstri. Fyrirtækin úti á landi standa ekki betur eftir þessa breytingu. Ég tek þetta bara sem dæmi um breytinguna. Hún getur hafa verið jákvæð og góð gagnvart höfuðborgarsvæðinu, að lækka skatta á fyrirtækin. Ekki ætla ég að gagnrýna það, ég mælti með því hér á sínum tíma, en ég bendi bara á að þarna var ekkert gert fyrir landsbyggðarfyrirtækin. Það var það sem ég spurði út í, virðulegi ráðherra, hvað liði aðgerðum í að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna út frá því sem hér hefur verið sagt. Talað er um að skattalegar aðgerðir verði skoðaðar sérstaklega í því sambandi og horft til reynslu nágrannaþjóðanna. Svo kemur hæstv. ráðherra og segir okkur einu sinni enn: Það er enn þá verið að skoða flutningskostnaðinn — en ekkert er gert. Hvergi sér þess stað í fjárlögum.

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt mál fram undan núna sem skekkir samkeppnisstöðu atvinnurekstrar á landsbyggðinni og atvinnufyrirtækja þeirra, þ.e. þegar sjóflutningum verður hætt 1. desember nk. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi farið um ýmsa staði í kjördæminu okkar — ég veit að hún hefur gert það (Forseti hringir.) og hefur þá væntanlega fengið upplýsingar um hvernig þetta muni íþyngja ákveðnum iðnfyrirtækjum í Eyjafirði þótt ekki séu tekin fleiri dæmi vegna þess að tími er ekki til.