131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:32]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Brottfall framhaldsskólanema upp á 10%–15% er allt of há tala og grafalvarlegt mál. Við megum aldrei slá af í því að fylgjast mjög grannt með því. Ástæður brottfalls eru að sjálfsögðu mjög margar, nánast jafnmargar og fjöldi þeirra nemenda sem fellur úr skóla á hverjum tíma. Hins vegar tel ég það mjög alvarlegt mál, ef það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni áðan, að hið opinbera sé farið að krukka í reiknilíkanið sem skólarnir hafa haft því ég tel að vandamálið verði fyrst og fremst leyst innan skólanna.

Skólarnir verða að hafa hvata til þess einmitt að vera á varðbergi með því að veita nemendum aðhald, með því að fylgjast vel með nemendum, með því að bregðast við með þeim hætti að þeim nemendum sem á einhvern hátt eru að hrasa í námi verði komið til hjálpar og þeir studdir áfram. Það er alveg hrikalegt þegar nemendur hætta í skóla vegna þess að menntun er það mikils virði.