131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra má vita það að við verðum öllum liðsmönnum fegnir sem hjálpa okkur í baráttunni fyrir því að koma í veg fyrir það óhæfuverk að Síminn verði seldur og einkavæddur. Það liggur náttúrlega við, herra forseti, ef málið væri ekki jafnalvarlegt og raun ber vitni að það væri gaman að vitna til gárunganna sem hafa verið með þá kenningu að kaup Símans í Skjá einum sé aðferð til að ná til baka einhverju af þeim fjármunum sem runnu út úr Símanum ófrjálsri hendi til að lappa upp á fyrirtæki hér á mánuðum áður.

En auðvitað er staðan sú að þau merkilegu tíðindi hafa gerst með þessum kaupum og áframhaldandi kaupum að Síminn er orðinn að fjölmiðlafyrirtæki. Skjár einn er samkvæmt skilningi hlutafélagaréttar orðinn dótturfyrirtæki Símans og mun birtast innan samstæðu fyrirtækisins ef svo heldur sem horfir. Þetta vekur auðvitað mjög margar spurningar og þar á meðal: Hvað er Síminn í dag? Hæstv. fjármálaráðherra talar hér á þeim nótum að hann sé ríkinu óviðkomandi þó hann fari með 99% hlutafjár í Símanum en Síminn virðist heldur ekki vera hlutafélag því það er ekki hægt að virkja hefðbundnar leiðir hlutafélagaréttar til þess að komast að málefnum Símans. Hvað er Síminn þá í dag? Einhvers staðar mitt á milli þess að vera ríkisfyrirtæki og hlutafélag? Gengur hann sjálfala? Kemur hann engum við? Er engin eigendaábyrgð til staðar á bak við fyrirtækið? Eða hefur hæstv. fjármálaráðherra aldrei lesið hlutafélagalög? Veit hann ekki að höfuðábyrgðina bera að lokum hluthafar?

Sú staða sem með þessu kemur upp hvað varðar Símann sem markaðsráðandi fyrirtæki í fjarskiptum og með einokunaraðstöðu að miklu leyti en jafnframt orðinn að fjölmiðlafyrirtæki er auðvitað kúnstug og hvað eiga aðrir að segja sem sækja undir Símann með sína þjónustu eins og Ríkisútvarpið? Gengur þetta fyrirkomulag upp? Hvar eru samkeppnisyfirvöld á vegi stödd í þessu? Síðan verður það þannig ef áformin um einkavæðingu ganga eftir að kaupandi Símans fær fjölmiðil í kaupbæti eða á kannski að láta Símann (Forseti hringir.) selja fjölmiðlahlutann réttum aðila rétt áður en einkavæðingin er fram eins og gert var með eignarhlut Landsbankans í VÍS áður (Forseti hringir.) en helmingaskiptin fóru fram í bankaheiminum?