131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:44]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn vandi að hafa þá skoðun að við gætum notað miklu meiri fjármuni í (Gripið fram í.) vegaframkvæmdir. Frestun framkvæmda skiptir mjög miklu máli að mati allra þeirra sem fjalla um efnahagsmál á Íslandi í dag. Það er vilji ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum og það er samdóma álit allra þeirra sem fjalla um efnahagsmál í dag að við getum ekki annað en tekið tillit til þeirra aðstæðna.

Sem samgönguráðherra og 1. þm. Norðvesturkjördæmis get ég ekki skotið mér undan ábyrgð hvað það varðar. Eftir sem áður eru í gangi meiri framkvæmdir í vegamálum í Norðvesturkjördæmi en áður hafa verið og það stefnir ekki í annað en að bærilega verði gengið fram í því ef okkur tekst að koma verkum (Forseti hringir.) í gegnum nálarauga umhverfismats og leyfisveitingar sveitarfélaga.