131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[17:40]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum. Það er 212. mál þingsins á þskj. 214.

Með frumvarpinu eru innleidd í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuráðsins nr. 2560/2001, um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Reglugerðin fjallar um greiðslur yfir landamæri í evrum. Markmið hennar er að tryggja að gjöld vegna slíkra greiðslna verði hliðstæð því sem gerist í greiðslum innan lands. Reglugerðin kveður á um að gjöld stofnunar fyrir færslu fjármuna í evrum yfir landamæri skuli vera þau sömu og gjaldfærslur sömu stofnunar vegna sams konar færslu fjármuna í evrum innan lands. Reglugerðin tekur annars vegar til rafrænnar greiðslumiðlunar í evrum yfir landamæri og hins vegar færslu fjármuna yfir landamæri. Reglugerðin nær til færslna að fjárhæð allt að 12.500 evrur en frá og með 1. janúar 2006 hækkar fjárhæðin í 50.000 evrur. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að aðildarríki geti ákveðið að rýmka beitingu hennar þannig að hún gildi einnig um gjaldmiðil þess. Þannig hafa sænsk stjórnvöld ákveðið að reglugerðin skuli ná til sænsku krónunnar. Norðmenn hafa á hinn bóginn ákveðið að reglugerðin skuli ekki gilda um norsku krónuna. Í frumvarpinu er ekki lagt til að reglugerðin nái til íslensku krónunnar.

Reglugerðin mun ekki hafa mikil áhrif hér á landi vegna þess að mjög lítið er um innlendar millifærslur í evrum.

Hæstv. forseti. Ég mælist til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.