131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:45]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um gjaldtöku í Hvalfjarðargöngin. Nú hefur komið í ljós, af þeim umræðum sem hér hafa orðið, að það er gagnlegt að ræða málið. Ég á von á að þingmenn velti þessu fyrir sér á næstunni við afgreiðslu tillögunnar og meðferð hennar í nefnd.

Undanfarna daga hafa orðið miklar umræður um áhrif Hvalfjarðarganganna á byggð og búsetu, efnahag og afkomu þeirra sem næst því samgöngumannvirki búa og starfa. Það fer ekki á milli mála og hefur komið býsna vel fram í umræðunni í dag að áhrifin eru talin geysilega jákvæð. Það sýnir okkur og sannar hve mikil áhrif samgöngumannvirki hafa á byggðirnar. Það skiptir því heilmiklu máli að byggja samgöngumannvirkin eins hratt upp og hægt er. Við sjáum verkefnin hvert sem við lítum. Við áttum okkur á því að byggðirnar eiga mikið undir því að okkur megi takast að byggja hratt, og enn hraðar þótt við höfum byggt samgöngumannvirkin hraðar upp síðustu missiri en nokkru sinni fyrr.

Við í þinginu þurfum að finna leiðir til að vinna að byggingu samgöngumannvirkja án þess að setja efnahagslífið á annan endann. Það hefur heilmikil áhrif að þrýsta miklum fjármunum í framkvæmdir. Það þekkjum við og höfum m.a. rætt um í dag.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar áðan hefur afstaða mín hvað varðar gjaldtöku vegna þessa umferðarmannvirkis verið skýr. Ég tel að við ættum að leita allra leiða til að Hvalfjarðargöngin megi verða sem hagkvæmust fyrir notendur. Hvaða leiðir eru færar til þess? Jú, þær eru til. Það er nauðsynlegt að skoða þær. Það hefur verið vilji minn að svo sé gert. Ég hef lagt mitt af mörkum til að leita þeirra leiða.

Leiðirnar sem menn hafa rætt eru í fyrsta lagi að fella gjaldið algerlega niður og færa þann kostnað til ríkissjóðs. En það þarf tvo til. Spölur hefur lögvarinn rétt til að reka þessi göng enn um sinn og þyrfti auðvitað að fara samningaleiðina ef niðurstaða þingsins yrði sú að falla frá þeirri leið, að framkvæmdin sé á forsendum einkafjármögnunar. Þá þyrfti að skoða það.

Ef við förum áfram þá leið að innheimta gjald þarf að leitast við að það verði hóflegt. Ég get þannig svarað að einhverju leyti — ég veit ekki hvort tími gefst til þess að svara henni í umræðu um þessa þingsályktunartillögu — fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Mér sýnist að það gefist ekki færi á því.

Ég tel í fyrsta lagi að það eigi að fjalla um virðisaukaskattinn í þessu sambandi. Mín skoðun er sú að þar eigi að verða breyting sem gæti leitt til þess að lækka gjaldið. Það er hluti af stjórnarsáttmálanum, að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Ég hef lýst þeirri skoðun sem við sjálfstæðismenn höfum lýst, að lækka eigi lægra þrepið sem gangagjaldið fellur undir. Ég tel að við eigum, í endurskoðun virðisaukaskattsálagningarinnar, að taka þetta mál sérstaklega til meðferðar. Það er vilji minn, þannig að það sé alveg skýrt og klárt hver hann er.

Í annan stað kemur upp spurningin um hversu hratt eigi að greiða þetta niður og hvernig fjármögnun skuli háttað. Ég hef lagt þá spurningu fyrir stjórn Spalar og lagt á það nokkurn þunga. Ég tel það skyldu stjórnar Spalar að leita leiða til þess að endurfjármagna eða standa þannig að rekstri ganganna að hægt verði að lækka gjaldið. Ég tel að það hljóti að vera möguleikar á að fara í þá vinnu í samstarfi stjórnvalda og stjórnar hlutafélagsins í þeim tilgangi að ná árangri til hagsbóta fyrir notendur ganganna.

Ég undirstrika að Spölur hefur lögvarinn rétt til að reka göngin. Það verður ekki svo auðveldlega gengið með valdi inn í að taka ráðin af þeim. Það liggur fyrir.

Spurt var um stefnumörkun. Hv. þm. Jóhann Ársælsson upplýsti réttilega að á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið í gangi vinna við að móta stefnu um gjaldtöku vegna notkunar umferðarmannvirkja. Ég tel afar mikilvægt að við á þingi tökum afstöðu til þess. Ég er mjög ánægður með afstöðu margra þingmanna sem hefur komið fram og góðan skilning á því að ástæða sé til að skoða áfram þá leið að fjármagna umferðarmannvirki með gjaldtöku. Ég vil ekki að það verði slegið út af borðinu til frambúðar. Þess vegna er verið að vinna að þessum málum.

Ég fékk sérfræðinga til þess að fara vandlega í þessi mál og leita upplýsinga, m.a. út fyrir landsteinana. Það er góður hópur að vinna í þessu. Ég lít svo á að ástæða sé til að í tengslum við endurskoðun samgönguáætlunar liggi niðurstöðurnar fyrir. Þetta er mjög vandasöm vinna. Við verðum að greina kosti og galla slíkrar framkvæmdar og hvaða möguleikar eru til staðar. Þessi vinna er á lokastigi hjá ráðuneytinu og verður síðan að sjálfsögðu kynnt fyrir þeim aðilum sem eðlilegt er að komi að málinu, áður en langt um líður.

Ég fagna hins vegar þessari umræðu og tel að hún geti verið gagnleg. Ég vænti þess að samgöngunefnd fjalli rækilega um málið.