131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[16:06]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Hæstv. forseti. Engin afstaða hefur verið tekin til þeirra þátta sem hv. þm. nefndi síðast. En málið yrði að sjálfsögðu rætt í utanríkismálanefnd áður en nokkur afstaða yrði tekin til slíkra beiðna.

Mér finnst ríkja nokkur misskilningur í öllu þessu máli. Ég held þó að þarft hafi verið að ræða það, sérstaklega vegna þeirra hörmulegu atburða sem áttu sér stað. En það hefur engin meginbreyting orðið á málinu síðan árið 1994. Hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, á auðvitað þakkir skildar fyrir áhuga hans á að byggja upp friðargæsluna. Við skulum þakka honum það.

En það er óþarfi að sleppa því að fyrrverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson hóf þessa starfsemi. Þeir fulltrúar sem þá gegndu störfum sem vitnað var til voru í hermannabúningum og voru vopnaðir, fengu sams konar þjálfun í norskri og breskri hernaðarsamvinnu. Á þessu hefur því engin breyting orðið í tíu ár.

Það getur ekki verið að þingmenn komi í þennan ræðustól og þykist ekki hafa vitað neitt um þetta. Ég trúi því ekki upp á þá þingmenn sem hér sitja, að þeir hafi ekki haft hugmynd um hvernig þetta var í pottinn búið. Þetta hefur verið nákvæmlega eins í tíu ár, algjörlega sama fyrirkomulagið. Tugir manna hafa gegnt slíkum störfum.

Ég sé engan eðlismun á því hvort verið er að kenna mönnum brunavarnir eða að stunda hjúkrunar- og hjálparstörf — hvort tveggja er þýðingarmikið fyrir uppbyggingu þjóðfélaga, engan mun. (ÖJ: En að skjóta fólk?) Fólk að störfum á hættusvæðum verður að fá leyfi til að verja sig.

Ég vek athygli á því að þessi starfsemi er alls staðar stunduð í umboði Sameinuðu þjóðanna. Ég held að þeir sem tala hátt um friðarstarfsemi og friðarvilja, sem vilja kannski kvaka hæst í þeim efnum og þykjast meiri friðarmenn en sumir aðrir, verði hjákátlegir ef þeir vilja ekki fylgja orðum sínum eftir með athöfnum.