131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Húsnæðislán bankanna.

[15:13]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Bankarnir keppast nú um að bjóða lán á lágum vöxtum og í stað þess að lána tiltekið hlutfall af verðgildi eignar eru nú boðin 100% lán. Allt lítur þetta vel út við fyrstu sýn en þegar farið er að rýna í smáa letrið er iðulega annað upp á teningnum.

Ég held að mörgum hafi brugðið í brún þegar upplýst var í fréttum Stöðvar 2 í gær hverjir skilmálar eru fyrir 100% íbúðalán hjá Íslandsbanka. Í fréttinni kom fram að þeir sem sækja um slík lán verða að taka lánatryggingu og skila blóð- og þvagsýni til læknis. Meðal þess sem fólk þarf að svara á sérstöku eyðublaði er hvort foreldrar eða systkini þeirra hafi haft hjarta- eða æðasjúkdóma, geð- eða taugasjúkdóma, berkla, krabbamein, sykursýki eða sjúkdóma sem geta verið arfgengir. Sumt af þessu samkvæmt fréttinni stríðir reyndar gegn lögum um persónuvernd.

Hér er um að ræða fyrirtæki á markaði en fyrirtæki engu að síður sem starfar samkvæmt lagaramma sem hér er settur, samkvæmt landslögum. Þegar um er að ræða að þegnunum sé mismunað á þennan hátt samkvæmt heilsufari er ástæða til að beina spurningum til hæstv. ráðherra sem fer með bankamálin. Hefur það verið rætt á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess hvort ástæða sé til að skerpa á lögum um persónuvernd eða öðrum lögum sem koma í veg fyrir eða eiga að koma í veg fyrir grófa mismunun af þessu tagi?