131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Aðgangur allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

31. mál
[18:20]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér fyrir því, í krafti eignarhluta ríkisins í Landssíma Íslands, að fyrirtækið setji sér það markmið og hefjist þegar handa um að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-farsímakerfinu. Jafnframt felur Alþingi ráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum þess efnis að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.“

Með tillögunni fylgir greinargerð sem ég vil hér rekja:

Tillaga þessi var síðast flutt á 130. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd. Hún var send til umfjöllunar í samgöngunefnd og fékk nefndin nokkuð margar umsagnir um tillöguna. Umsagnir samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra voru afar jákvæðar svo og umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sem í sínu erindi lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi GSM-sambands fyrir ráðstefnuþjónustu og fundahald. Auk þess bárust líka mjög afdráttarlausar stuðningsyfirlýsingar frá flestum samtökum á Vestfjörðum, Samtökum sveitarfélaga, ferðaþjónustuaðilum og öðrum aðilum á Vestfjörðum svo dæmi séu tekin sem hvöttu eindregið til þess að tillagan yrði samþykkt og tekið alvarlega og með átaki á GSM-farsímaþjónustunni um allt land.

Ekki þarf að deila um mikilvægi þess að fjarskipti séu traust. GSM-kerfið hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og almenningur sem og opinberir aðilar treysta á það í æ ríkari mæli. Allmikið vantar þó upp á að kerfið nái til allra byggða landsins. Þá er það algjörlega nú undir símrekanda komið hversu hratt brugðist er við bilunum í kerfinu en slíkt getur haft verulega þýðingu í öryggistilliti.

Það velkist enginn í vafa um að samkeppnishæfni búsetu og atvinnulífs er háð nútímafjarskiptum. Notkun GSM-farsíma hefur breiðst hratt út, einkum meðal ungs fólks og í viðskiptalífinu. Samkvæmt upplýsingum Póst- og fjarskiptastofnunar eru nú, þegar þessi tillaga er samin, milli 230 og 250 þúsund GSM-farsímanúmer í notkun hér á landi. Það að svæði í byggð séu í GSM-símasambandi er í hugum fjölmargra einn af mælikvörðum á það hvort nútíminn hafi haldið þar innreið sína. GSM-símasamband er mikilvægt fyrir eflingu ferðaþjónustu og viðskipta í hinum dreifðu byggðum. Ferðafólk og vegfarendur vítt og breitt um landið treysta orðið á að í byggð og á helstu þjóðvegum landsins sé GSM-farsímasamband. Það er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og alla íbúa landsins að eiga greiðan og öruggan aðgang að nútímafjarskiptum. Annað felur í sér mismunun. Gagnvart svo mikilvægri almannaþjónustu sem GSM-símafjarskipti eru orðin eiga íbúar landsins alls að búa við jafnrétti óháð búsetu hvað varðar aðgengi að þessari þjónustu. Í þessu samhengi verður jafnframt að leggja áherslu á að ekki verði slegið slöku við að efla gæði og öryggi annarrar fjarskiptaþjónustu, svo sem í almenna símkerfinu og NMT-farsímakerfinu. Því miður, herra forseti, virðist þjónusta og tilurð NMT-farsímakerfisins vera í mikilli óvissu og hver framtíð þess verður.

Ljóst er að talsverður kostnaður fylgir því að tryggja landsmönnum aðgang að GSM-kerfinu í allri byggð og á aðalþjóðvegum, og víða verður það ekki rekið á viðskiptagrunni frekar en mörg önnur almannaþjónusta. Því er nauðsynlegt og eðlilegt að gera þá kröfu að ríkisvaldið tryggi öllum íbúum þjóðarinnar jafnt aðgengi að þessari þjónustu.

Unnt er að tryggja hámarksöryggi og útbreiðslu GSM-farsímakerfisins með ýmsum hætti. Nærtækast er að fela Landssíma Íslands, sem er að nær öllu leyti í eigu þjóðarinnar, að ráðast í verkið. Með því einu að lækka arðsemiskröfuna sem gerð er til fyrirtækisins má ná markmiðinu án þess að veita til þess fé úr ríkissjóði. Hvað varðar aðra hluthafa í félaginu þarf að vera tryggt að þeir eigi innlausnarrétt á hendur ríkinu á sínum hlutum ef þeim líkar ekki sú ákvörðun. Rétt er að minnast á í þessu sambandi að á þessu ári er gert ráð fyrir að arður til ríkisins af rekstri Landssíma Íslands nemi 2,3 milljörðum kr. Það er því ljóst að Landssíminn sem fyrirtæki er gott og arðbært og er þess vegna mikilvægt að ríkið eigi það áfram.

Hugnist mönnum ekki sú leið sem að framan greinir má tryggja útbreiðslu kerfisins með því að setja á það alþjónustukvaðir, en slíkar kvaðir falla að uppbyggingu þeirra fjarskiptalaga sem nú eru í gildi. Yrði sú leið farin hlýtur að teljast eðlilegt að fela Landssímanum að sjá um að uppfylla slíkar kvaðir, enda rekur fyrirtækið stærstan hluta þess fjarskiptakerfis sem fyrir er í landinu.

Skilgreining GSM-farsímakerfisins sem öryggis- og neyðarkerfis í fjarskiptalögum leiðir til þess að tryggja verður þjónustuna, og það er líka hægt að fara þá leið samkvæmt fjarskiptalögum.

Þegar tillagan var send út til umsagnar á síðasta þingi bárust fjöldamargar umsagnir um tillöguna. Ég vil t.d. vitna hér í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um tillöguna, með leyfi forseta:

„Samtök ferðaþjónustunnar hafa oft vakið athygli á að mikið vantar upp á að þjónustunet GSM-kerfisins nái um allt land eins og sjá má af meðfylgjandi mynd. Fyrir ferðaþjónustuna skiptir það orðið mjög miklu máli að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, geti treyst því að ná sambandi hvar sem er á landinu. Er það í fyrsta lagi mikið öryggisatriði fyrir ferðamenn að þeir geti leitað sér upplýsinga eða aðstoðar hvar sem þeir eru niður komnir.“

Áfram segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar:

„Í öðru lagi og ekki síður mikilvægt er að með þeirri áherslu sem lögð hefur verið á uppbyggingu ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins þá er það oft grunnkrafa frá þeim sem t.d. skipuleggja fundi og ráðstefnur að þar sé GSM-samband. Hefur þetta orðið til þess að gististaðir sem ekki eru innan þjónustusvæðis eru sniðgengnir og einnig heilu landsvæðin.

Samtökin taka því undir þessa ályktun um að unnið verði markvisst að því að efla útbreiðslu kerfisins. Núverandi langdrægt NMT-kerfi er eingöngu þekkt innan Norðurlandanna og er nánast alfarið bundið við íslenska notendur og kemur því ekki erlendum gestum að gagni. GSM-kerfið er hins vegar notað um allan heim og væri mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi að geta kynnt það að hvar sem menn væru á landinu væru þeir í sambandi við umheiminn.“ — Þetta segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar, þess atvinnuvegar sem vex hvað hraðast nú á Íslandi og er að verða einn af stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnuvegum þjóðarinnar. Lögð er áhersla á að sá atvinnuvegur byggir einmitt á því að hægt sé að nýta og nota landið allt til fjölþættrar ferðaþjónustu en eitt af skilyrðunum til að það sé hægt er að þar sé fjarskiptasamband með eðlilegum hætti, bæði í byggð á þeim stöðum sem koma til greina sem funda- og ráðstefnustaðir og einnig á þjóðvegakerfinu.

Ég vil einnig benda á í hvers konar stöðu málið er nú að bæði fyrirtækin sem eru á fjarskiptamarkaðnum, Landssími Íslands og OgVodafone, keppast nú við að byggja upp GSM-farsímaþjónustuna á þéttbýlissvæðinu í kringum höfuðborgina og nágrenni hennar vegna þess að þar telja þeir arðsemina vera mesta. Á því svæði er víða komið upp tvöfalt GSM-kerfi og tvöfalt kerfi af sendum en út um stóra hluta landsins er enginn sendir vegna þess að þeir, að mati símafyrirtækjanna, uppfylla ekki þá arðsemiskröfu sem þau gera.

Þetta held ég að sé rangt mat hjá þeim því það skiptir máli ef maður ætlar að vera þekktur fyrir að veita góða þjónustu að geta veitt hana um allt land. Notendur sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu þurfa líka oft að fara út um land og það skiptir þá máli þegar þeir meta gæði fjarskiptaþjónustu sinnar hvort þeir geti hringt í öryggisskyni, staddir uppi á Steingrímsfjarðarheiði, á fundi á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp eða norður á Ströndum eða með sprungið dekk eða bilaðan bíl á Þverárfellsvegi eða Öxnadalsheiði, að geta þá hringt og látið vita af sér.

Þetta er því ekki einkamál íbúanna sem búa á þessum stöðum, þetta er samfélagsmál. Þess vegna er lögð áhersla á það í þessari tillögu að ríkið, að við hér á Alþingi öxlum hina eðlilegu ábyrgð á því að fjarskiptasamband eins og GSM-fjarskiptasamband sé tryggt og öruggt á öllum aðalþjóðvegum, aðalleiðum í byggð og líka þar sem byggð og búseta er vítt og breitt meðfram ströndum landsins og inn til dala.

Herra forseti. Ég vil víkja hér að einu klassísku erindi sem við þingmenn fáum. Ég er ekki að fagna því að það þurfi að senda okkur svona erindi en hér er ég með undirskriftaskjal frá öllum íbúum og fulltrúum atvinnufyrirtækja við Ísafjarðardjúp, það eru líklega nálægt 30 manns sem hafa ritað nöfn sín hér undir, þar sem þeir skora á Símann og á Alþingi að fylgja því eftir að fjarskiptaþjónustan við allt Ísafjarðardjúp verði bætt þannig að fólk og fyrirtæki þar geti notið eðlilegs öryggis og þjónustu sem fjarskiptasambandið veitir.

Ég minnist þess þegar fjárlaganefnd var á ferðinni um Vestfirði núna í haust. Við byrjuðum ferðina um suðurfirðina og síðan var ekið áfram norður. Það var athyglisvert að einstaka staðir á leiðinni voru merktir þar sem sagt var að hægt væri að ná sambandi gegnum síma, örfáir staðir. Þá var rútan látin stoppa þar því fjárlaganefnd var náttúrlega skipuð stórmerkilegu fólki sem þurfti alltaf af og til að vera í símasambandi. Það var á vissan hátt upplifun að heyra þennan ágæta hóp segja stöðugt: Ja sko, ég get rétt talað við þig núna en svo verðurðu að bíða í tvo klukkutíma því að við ökum núna næstu tvo klukkutímana og erum þá ekki í neinu GSM-farsímasambandi. Svona gekk leiðin fyrir Vestfirði og þetta þekkjum við sem förum þar oft. En þegar maður er í rútu þá er hægt að tala í símann og svo hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þá er líka hægt að stoppa og tala í símann.

En eins og getur nú komið fyrir að bíll bili eða að það springi dekk á þessum hörðu malarvegum, þá er það bágt að geta ekki látið vita af sér, ég tala nú ekki um ef alvarlegri óhöpp verða. Í nútímasamfélagi viljum við hafa þetta öryggi, tæknin er fyrir hendi og hún er ekki svo dýr. Það vantar bara viljann sem þarf að vera fyrir hendi og einnig þá samfélagslegu ábyrgð sem ég kalla hér eftir gagnvart þessari þjónustu.

Herra forseti. Ég hef hér mælt fyrir tillögu minni um GSM-farsímasambandið í byggð og á öllum aðalþjóðvegum landsins. Þetta er brýnt mál fyrir jafnrétti í búsetu, fyrir atvinnulíf, fyrir öryggi um allt land og þar eiga menn að horfa á landið sem heild en ekki bara á einhverja afmarkaða staði sem reiknað hefur verið út að muni skila arði út frá einhverjum gefnum forsendum. Þetta er þjónusta við landið í heild og það er eðlilegt að Landssími Íslands verði áfram í eigu ríkisins og honum verði falið að annast þessa þjónustu fyrir alla landsmenn.