131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Aðgangur allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu.

31. mál
[18:35]

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. flutning þessarar þingsályktunartillögu og taka undir orð hans, það er ekki miklu við ágæta greinargerð hans að bæta.

En kannski ég grípi niður í ferð fjárlaganefndar um Vestfirði, það er reynsla sem ég þekki mjög vel. Það er ekki við því að búast að oft hafi verið stoppað í þessari ferð, t.d. á leiðinni til Patreksfjarðar. Því þegar maður er á leiðinni þangað og héðan — hingað og héðan liggja flestar leiðir — þá er GSM-samband í Búðardal en síðan þarf ekki að stoppa þessa umtöluðu rútu fyrr en tveimur klukkutímum síðar, á Skálanesi og þá má aka í tæpa tvo tíma þangað til komið er á Patreksfjörð.

En ég legg áherslu á að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð. Við höfum, eins og hv. flutningsmaður gat um, haft NMT-símkerfið og það hefur nýst okkur allvel undanfarna tvo áratugi síðan það var tekið upp líklega 1983 eða 1984. Hins vegar fullyrði ég af eigin reynslu að af einhverjum ástæðum hefur NMT-samband, a.m.k. á þeirri leið sem ég gat um áðan, stórlega versnað. Ég kann ekki tæknilegar skýringar á því, ég hef bara reynslu mína og sögur annarra um það. Þess utan er GSM að taka við eins og réttilega er getið um hér í greinargerð. Það er alþjóðlegt kerfi sem ferðamenn sem koma hingað nota og því sjálfsagt að reyna að skilgreina það þannig að þeir geti notað það hér.

Það hefur löngum verið talað um að eftir því sem byggð eyðist eða eigi erfiðara uppdráttar þurfi að finna eitthvað sem komi í staðinn. Lengst af hefur ferðaþjónustuna borið hæst í því sambandi sem er kannski ekki órökrétt þar sem hún er sú grein sem hefur vaxið mjög mikið. Hins vegar er erfitt að ætla henni stað í dreifðum byggðum miðað við þær aðstæður sem henni eru þar búnar núna. Með hverju árinu og með hverjum áratug sem líður eru gerðar meiri kröfur um fjarskipti, um tengsl við umheiminn á allan hugsanlegan hátt. GSM-síminn er ekki lengur notaður einungis sem sími heldur mjög fjölþætt tæki til samskipta milli manna og milli heimsálfa .

Hvernig eiga menn við svo mismunandi aðstæður, þar sem huga þarf að fjöldamörgu, t.d. húsakynnum, umhverfi og ýmsu öðru, að byggja upp ferðaþjónustu? Ég nefni sem dæmi — eftir því sem ég best veit er enginn þessara staða með GSM-farsímakerfi — t.d. Laugarhóll í Bjarnarfirði, Reykjanes við Djúp, Núpur í Dýrafirði, Bjarkarlundur, Flókalundur, Laugar í Dalasýslu. Ég veit ekki til að neinn þessara staða hafi GSM-samband. Ég veit reyndar ekki alveg um Laugar, síðast þegar ég var þar var ekki hægt að ná í GSM-síma þar. Þarna eru stórkostlegar aðstæður til að koma upp góðri, öflugri og fjölþættri ferðaþjónustu með þessum annmarka þó. Hann getur að vísu verið kostur í einstöku tilvikum en ef bjóða á upp á fjölbreytta þjónustu þá gengur þetta ekki. Við getum ekki byggt alla okkar ferðaþjónustu á landsbyggðinni upp á sérvitringum sem eingöngu vilja komast í frið, við þurfum að hafa þessa nýju samskiptatækni.

Það segir sína sögu, eins og segir í greinargerð, að umsagnir sveitarfélaga, bæði á Suðurlandi, Norðurlandi eystra og vestra hafa verið jákvæðar og sömuleiðis hafa Samtök ferðaþjónustunnar — sem er kannski ekki svo skrýtið — lagt sérstaka áherslu á gildi þess að þetta mál nái fram að ganga.

Það var gerð mjög vel grein fyrir gagnsemi GSM-farsímakerfisins, ég tek undir það sem hér hefur verið sagt og ítreka að GSM-kerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins og mér finnst ekki óeðlilegt að eignarhluti ríkisins í Landssíma Íslands verði nýttur til þess að setja þau markmið að Landssíminn taki þetta mál að sér og þegar verði hafist handa um að tryggja aðgang að GSM-kerfinu.