131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:11]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi að það hefði ekki margt annað heppnast við innrásina í Írak en að einræðisherranum var komið frá völdum, reyndar á bak við lás og slá, en flest annað hefði misheppnast. En þetta eina er kannski meginatriðið og við þekkjum mörg önnur dæmi þess að slíkt hafi verið meginatriðið. Til að mynda á Spáni, þegar generalissimo, einræðisherrann Franco, fékk loksins heilablóðfall, minnir mig að hafi verið, eftir að hafa legið í dái í 16–17 daga og ekkert gerðist. Það var ekki fyrr en hann var allur að það hófst nýr tími á Spáni og Spánn færðist í lýðræðisátt og er núna eitt af forusturíkjum lýðræðis í heiminum. Það er ekki langt síðan að þar ríkti einræði og skoðanakúgun, allt byggt á einum einræðisherra. Það getur því skipt mjög miklu máli að einmitt slíkur maður sé hrakinn frá völdum þó það kosti heilmikið til.

Fundið er að því að ekki hafi verið nægilega góðar áætlanir af hálfu þeirra sem hröktu innrásarliðið frá völdum. En ef farið væri yfir það sem allir spekingarnir sögðu í öllum sjónvarpsþáttunum um götubardagana sem yrðu í Bagdad, hvernig hundruð þúsundir manna mundu falla þegar barist yrði við úrvalssveitirnar, hús úr húsi og fleira þess háttar, borgarastyrjöld svo árum skipti, ekkert af þessu hefur staðist. Auðvitað er ekkert ríki sem getur með góðu móti staðist sjálfsmorðsárásir á venjulega borgara. Það er aldrei hægt að verja alla borgara ríkis. Þetta gátum við séð í menningarríkinu Bretlandi, á Norður-Írlandi, þar sem bjórstofur og skólar voru sprengdir í loft upp þar til nýlega. Þetta var í okkar næsta nágrannaríki og þar sem deilendur (Forseti hringir.) trúðu, að því er virtist a.m.k., báðir á sama guðinn.