131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:07]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins minni háttar athugasemd varðandi alþjóðasamninga. Ég held að það sé ekki rétt að Evrópusambandið hafi ekki beitt sér á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í átt til markaðsvæðingar. Evrópusambandið hefur hins vegar verið gagnrýnt mjög harðlega fyrir að gera það og að reyna að fara sínu fram á bak við tjöldin. Evrópusambandsríkin hafa falið kommissjóninni samningsumboð fyrir sína hönd. Það olli meira að segja miklum úlfaþyt á sínum tíma þegar upplýst var að Evrópusambandssamningsaðilarnir hefðu farið fram á það gagnvart öllum viðskiptaríkjum sínum að þeir opnuðu aðgang að vatni, einkavæðingu vatnsins, svo dæmi sé tekið.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að Alþjóðaviðskiptastofnunin er tæki til að markaðsvæða samfélögin. Tækinu er stýrt af ríkum iðnríkjum, sérstaklega Bandaríkjunum sem hafa mest áhrif innanborðs, en einnig öðrum ríkum iðnríkjum. Þau hafa einnig önnur tæki á hendi, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann. Við fengum fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í heimsókn fyrir fáeinum dögum til að hvetja Íslendinga til að taka upp gjöld í heilbrigðisþjónustunni í ríkari mæli en verið hefur. Maður spyr sjálfan sig stundum í umboði hverra þessir fuglar eru eiginlega að tala.

Þá er komið að athugasemd minni við ræðu hv. þingmanns, þeirri staðhæfingu að markaðsvæðing gagnist sérstaklega þriðja heims ríkjum og fátækum ríkjum heimsins. Það er alveg rétt hjá honum að hún gagnast þeim þegar iðnríkin opna markaði sína fyrir þeirra vöru, (Forseti hringir.) en ef við snúum dæminu við og opnað er á innkomu hinna ríku í velferðarþjónustu og velferðarkerfi hinna (Forseti hringir.) snauðu ríkja gegnir öðru máli.