131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:14]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skildi hv. þingmann rétt er hann á því að frjáls viðskipti séu góð, milliríkjaviðskipti, en hann setur bara fyrirvara sinn við ákveðinn þátt innan GATT-samningsins ... (ÖJ: GATS.) Það er allt í lagi að hann leiðrétti mig þá bara í frammíkalli, ég er að reyna að átta mig á því hvar skoðanir þingmannsins liggja. Af fyrstu ræðu hans var ekki hægt að greina annað en það að hann væri almennt á móti frjálsum viðskiptum milli landa.

Ég get ekki annað heyrt en að þingmaðurinn hafi annaðhvort verið að leiðrétta mig, að ég hafi ekki skilið hann rétt, eða draga í land með það og að eftir standi að hann sé annaðhvort á móti GATS-samningnum sem einum af samningum Alþjóðaviðskiptastofnunar eða einhverjum hluta GATS-samningsins. Það má vel vera að þar séu einhverjar hugmyndir sem þurfi að skoða, ég ætla ekkert að segja um það. Hins vegar liggur alveg fyrir að hagur þjóða liggur í því að hafa sem frjálsust viðskipti milli landa. Það er það sem menn stefna að af ástæðu. Það er ekki út af kvikindisskap eða stóru samsæri, heldur eru menn að þessu fyrst og fremst til þess að bæta hag almennings í viðkomandi löndum. Reynslan hefur sýnt okkur að menn leggja allt þetta á sig, sem er ekki lítið, til þess að efla viðskiptafrelsi í heiminum, til að bæta hag almennings í viðkomandi löndum. Þó er sérstaklega mikilvægt, virðulegi forseti, í þeim löndum sem við köllum þróunarríki að við hleypum þeim inn á markaði okkar og þar nái að þróast markaðshagkerfi öllum til hagsbóta. (ÖJ: Ekki þegar viðskiptafrelsið er notað til að ræna það.)