131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:23]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki nýtt í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann sé andsnúinn því að farið skyldi hafa verið með hervaldi gegn ríkisstjórn Saddams Husseins. Saddam Hussein var þó einn mesti harðstjóri sem við þekkjum í nýliðinni sögu, réðst a.m.k. tvisvar inn í fullvalda ríki, (Gripið fram í.) beitti eiturefnaárásum gegn Kúrdum og stundaði endalausa ógnarstjórn gegn sínu eigin fólki.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson var árum saman einn flutningsmanna að tillögu um að við skyldum hverfa frá viðskiptabanni gegn Írak. Hv. þm. trúði lyginni úr Saddam Hussein sem sagði að viðskiptabannið ylli því að börn syltu í Írak þó að menn vissu að Saddam Hussein væri að safna auði eins og reyndar kom á daginn þegar hann var hertekinn á sínum tíma.

Nú liggur alveg kristaltært fyrir að hv. þm. var mikill andstæðingur þess að farið skyldi með hervaldi gegn Saddam Hussein. Það mátti heldur ekki reyna að beita hann þvingunum á viðskiptasviðinu vegna þess að hv. þm. trúði bullinu og lyginni úr Saddam Hussein. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hafði hv. þm. einhver ráð? Var hann þeirrar skoðunar yfir höfuð að það ætti eitthvað að hrófla við þessum heiðursmanni? Var hann þeirrar skoðunar að hann mundi með því að tala nógu ákaflega í sölum Alþingis t.d. geta talið Saddam Hussein á það að hverfa bara frá valdastóli svo að hann léti af þessum hryllingi?

Hv. þingmaður hefur ekki svarað þessari spurningu, hvorki í þessari umræðu né öðrum sem ég hef hlustað á. Mér finnst það skaði fyrir umræðuna vegna þess að hv. þm. hefur heilmikla þekkingu á þessu svæði. Hann hefur þess vegna heilmikið til umræðunnar að leggja og ég hvet hv. þingmann til að upplýsa okkur hin sem sáum engin ráð önnur en þau að farið skyldi með hervaldi gegn þessum ógnarherra. (Forseti hringir.) Ég vildi biðja hv. þingmann að greina okkur öðrum frá því hvaða hugmyndir hann hafði í þessum efnum.