131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:12]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því í sjálfu sér að þessar tillögur skuli loksins líta dagsins ljós eftir allan þennan tíma. Ég leyfi mér að vitna til orða hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra sem sagði í þessari umræðu fyrir um það bil ári, með leyfi forseta:

„Án þess að ég ætli að fara að líkja íslenska stjórnkerfinu við almættið, þá er mér óhætt að minna á að myllur guðs mala hægt en mala vel og ég er sannfærður um að þó að málið hafi farið allan þennan farveg sem lýst var, þá er ríkur vilji ekki bara hjá stjórnkerfinu, heldur veit stjórnkerfið um að ríkur vilji er hjá Alþingi til að vinna því gagn. Ég tel að sú samstaða sem náðist um þingsályktunartillöguna hafi verið afar sérstæð í þinginu og mikilvæg þannig að ríkisvaldið í hvaða mynd sem það er statt hefur hvorki efni né ástæðu til að draga lappirnar hvað þetta mál varðar.“

Ég skora á hæstv. núverandi forsætisráðherra að taka þetta mál upp á arma sína og ekki láta það velkjast í kerfinu með þeim hætti sem við höfum hér mátt horfa á. Enda er gert ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar að forsætisráðherra hafi forsjá í þessu máli. Það er eitt fyrsta paragraf í tillögu nefndarinnar. Ég skora því á hæstv. forsætisráðherra að víkja sér ekki undan þessari ábyrgð, og bara taka hana. Vangaveltur í önnur ár til geta verið vangaveltur fullkomlega um það sem liðið er.

Ég get ekki annað en lokið þessum orðum mínum með því að skora á forsætisráðherra að láta þetta ekki lengur velkjast. Við erum að ganga frá fjárlögum og þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til og kosta peninga verða að koma inn á fjárlög næsta árs. Þetta á ekki að þurfa að velkjast í kerfinu þennan tíma ef sá vilji er til sem Alþingi hefur líka lýst yfir.