131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Útvarp á öðrum málum en íslensku.

166. mál
[14:46]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að menn hafi skilið ástæður þeirrar einu undanþágu sem útvarpsréttarnefnd gaf á sínum tíma til XA-Radíó. Á hinn bóginn vil ég undirstrika að það er skoðun mín að þeir miðlar sem telja sig vera íslenska skulu að sjálfsögðu reyna að sinna því hlutverki að efla hag og veg íslenskrar tungu. Það eru ákveðin lög í landinu sem allir fjölmiðlar eiga að hlíta og menn verða að skilja það.

Varðandi enska boltann tel ég æskilegra að menn útvarpi á íslensku í íslenskum fjölmiðlum, svo menn hafi það alveg á hreinu. Ég undirstrika hins vegar að það er kæra til meðferðar hjá útvarpsréttarnefnd sem kemur örugglega innan tíðar til efnislegrar meðferðar hjá henni.