131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:30]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að stærsti þjóðgarður Evrópu verður að veruleika með undirritun hæstv. umhverfisráðherra 28. október en fyrirspurn mín lýtur einmitt að Vatnajökulsþjóðgarði sem við erum að vona að verði framhaldið af þessum góða gjörningi og hvort til greina komi að Eldgjá og Langisjór verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs líkt og Lakagígar. Eldgjá er friðað svæði, og Langisjór með sínu mikilfenglega umhverfi mundi sóma sér vel í slíkum þjóðgarði.

Þessi nýja reglugerð um stækkunina á þjóðgarði sem stofnaður var 1967 er þreföldun, úr 1.600 ferkílómetrum í 4.800 ferkílómetra, og núna heyrir sá þjóðgarður til 57% Vatnajökuls- og Lakagígasvæðis. Ég vil sérstaklega benda á markmiðið í reglugerðinni um að vernda landslag, lífríki og menningarminjar, að þetta verði almenningur og náttúra sem allir geti sótt í. Fólk á að geta notið þessa. Þetta markmið þjóðgarðsins er mjög mikilvægt vegna þess að í öðrum tilfellum þegar við erum að meta landið er t.d. landslag eða fegurð ekki metið. Nýting er metin, lífríki og orkan. Þarna getum við kannski sameinast um að taka frá það sem við viljum að verði ekki spillt.

Við erum að tala um tvær stórar og merkar gossprungur, Lakagígana og Eldgjá og í framhaldi af Skaftárgljúfrinu er Langisjór. Það er vaxandi skilningur á Langasjó sem náttúrufyrirbrigði. Það verður 1.700 metra munur á hæstu og lægstu vatnsstöðu ef Langisjór verður gerður að miðlunarlóni, og mörgum hrýs hugur við að veita Skaftá í Langasjó eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Það er líka umhugsunarefni að vaxandi hiti er í Skaftárkötlum og hlaup hafa verið í Skaftá að undanförnu en í rammaáætlun er hvergi minnst á hættu á eldgosum.

Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort til greina komi að skoða að Eldgjá og Langisjór verði hluti af hinum nýja Vatnajökulsþjóðgarði.