131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Æfingaaksturssvæði.

257. mál
[18:11]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég leyni því ekki að það kom mér afskaplega mikið á óvart því ég heyrði ekki betur en svona í megindráttum að nýjar sænskar rannsóknir leiddu það í ljós að ökugerði eða æfingaaksturssvæði leiddu hvorki til eins né neins og það væri satt að segja ekkert gagn að þeim. Öðruvísi mér áður brá. Þessar sænsku rannsóknir og norrænu rannsóknir eru a.m.k. í hrópandi ósamræmi við það sem mér sérfróðri menn hafa sagt mér í gegnum árin og áratugina um mikilvægi þess að ungir nemendur hefðu tækifæri á að æfa sig við ólíkar aðstæður. Ég hélt að þar sem þær aðstæður eru ekki til á götum borgarinnar og ef fólk er að æfa sig á þeim árstíma þá þurfi að búa þær aðstæður til í þessu svokallaða ökugerði eða æfingaaksturssvæði, til þess hafi leikurinn alla tíð verið gerður. Því kemur mér það afskaplega mikið á óvart ef einhverjar efasemdir hafa gert vart við sig núna hjá sérfróðum aðilum með þeim afleiðingum að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi ákveðið að bíða átekta og skoða nánar og velta eilítið lengur vöngum yfir þessu. Kannski getum við bara leyst mörg vandamálin með þessu, að bíða í svona 20 ár því þá skipti menn um skoðun og sjái að það var engin þörf fyrir viðkomandi þjónustu. Ég er ekki sannfærður. Ég ætla að segja það alveg hreinskilnislega, herra forseti. Mínar upplýsingar eru enn þá svipaðar og þær voru fyrir 20 árum, þ.e. að þær þúsundir ungmenna sem þreyta bílpróf á hverju ári og eru komin út á göturnar hafi fulla þörf fyrir að æfa sig við ólíkar og mismunandi erfiðar aðstæður í umferðinni þegar þeim er ekki til að dreifa og ekki unnt að koma þeim fyrir á götum borga og bæja.

Herra. forseti. Að lokum bið ég hæstv. ráðherra að gaumgæfa ekki málið of lengi heldur láta verkin tala. Það er löngu kominn tími til þess.