131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Gjafsókn.

167. mál
[18:40]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Það er vafalaust hægt og væri hægt á nefndarfundi tel ég víst að fá gjafsóknanefndarmenn til að koma á fundinn og lýsa þessu. Það er náttúrlega mjög mismunandi hve kostnaður er mikill sem ríkið ber sem greiðandi gjafsóknar og er auðvitað forvitnilegt úrlausnarefni í sjálfu sér fyrir þingmenn og aðra sem hafa áhuga á þessu máli að átta sig á hver er sá kostnaður sem fellur til við einstök mál og hvernig greiðslum er háttað o.s.frv. Ég hef ekki farið út í það hér en það er vafalaust hægt að rýna í þær tölur betur, þær liggja allar fyrir, það eru ekki nein leyndarmál í þeim. En ég get ekki farið að lesa þær tölur upp hér eða þá ítarlegu sundurliðun sem þarf að vera til þess að menn átti sig nákvæmlega á þessum kostnaðarþáttum en ég er viss um að ef hv. allsherjarnefnd vill fara ofan í kostnaðartölurnar og skoða einstök mál og átta sig á því hvað er greitt vegna einstakra mála þá er það vafalaust unnt fyrir nefndina að gera það.

Ég vil líka minna á það, herra forseti, að þetta mál var afgreitt frá allsherjarnefnd á síðasta þingi og meiri hluti nefndarinnar mælti þá með því að frumvarpið yrði samþykkt en við lyktir þingsins varð það að samkomulagi að málið kæmi ekki til afgreiðslu á vorþinginu heldur yrði tekið upp aftur á haustþinginu og afgreitt með fjárlögunum fyrir áramótin, og ég vona svo sannarlega að unnt verði að standa við það samkomulag.