131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:56]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Það er dálítið sérstakt að hlusta hér á stjórnarandstæðinga koma með þá fullyrðingu að í skjóli laga og verndar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi olíufélögin starfað óeðlilega. Þau hafa starfað undir lögum um áratuga skeið þar sem ríkisstjórnir jafnt til vinstri sem hægri hafa átt hlut að máli.

Nú hefur lögum verið breytt fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins með tilliti til Samkeppnisstofnunar. Þá koma menn og segja að ríkisstjórnin haldi enn verndarhendi yfir olíufélögunum. Auðvitað fordæmum við þetta samráð. Skaðinn af samráðinu verður þó aldrei bættur eins og hér hefur komið fram og ég tek undir það. En við skulum ekki fara í pólitískt kapphlaup í máli þessu.

Þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir, sem hér er málshefjandi, er vönd að virðingu sinni. Því kemur mér á óvart sú ferð sem Samfylkingin leggur nú upp í löngu áður en mál þetta er til lykta leitt. Menn eru þegar farnir að tala um endurgreiðslur til ríkissjóðs og nefna í því samandi milljónir og jafnvel milljarða. Ég hlýt að segja að það er of snemmt að varpa fram endanlegum tölum um ágóða fyrirtækjanna af meintu verðsamráði. Það sama á við um hugsanlegar skatttekjur ríkissjóðs af slíkum ágóða.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kemur mér mjög á óvart hve mikið mönnum liggur á. Síðan koma háttvirtir þingmenn og segja að það sé hjóm eitt sem heyrist frá Sjálfstæðisflokknum. Það var athyglisvert að hlusta á umræðuna um stöðu borgarstjóra þegar háttvirtir þingmenn Samfylkingarinnar komu hver á fætur öðrum og vildu höggva hann í herðar niður en það voru sjálfstæðismenn sem sögðu: Við skulum bara láta málið anda og ráðast ekki á einstakar persónur í þessu máli í þeirri stöðu sem það er. Er það hjóm í sjálfstæðismönnum að vaða ekki fram eins og hér hefur verið gert?