131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:42]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir eru víðar séra Jónarnir en í opinbera kerfinu. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að ekki sé til nein mismunun á almennum vinnumarkaði í þjóðfélaginu utan ríkis og sveitarfélaga.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í ríkiskerfinu og í sveitarstjórnarkerfinu einnig er mikil mismunun á milli þeirra sem tróna efst og hinna sem eru lægstir eða í millitekjuhópunum. En að sjálfsögðu gildir hið sama í þjóðfélaginu öllu. Launafólk hefur horft upp á það gerast núna í seinni tíð, á síðustu missirum og árum, að stórir hópar fólks bókstaflega raka til sín milljónum. Það þykir ekki tiltökumál orðið að hafa milljón á mánuði í laun. Finnst mönnum undarlegt að fólk sem býr við hugsanlega tíunda hluta af þessu á mánuði, 100 þús. kr., 200 þús. kr., vilji rétta sinn hlut? Þá rís hér upp fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og spyr: „Hvað vill þetta fólk upp á dekk?“ Og hann reynir að safna liði í samfélaginu gegn þessu fólki. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni. Þess vegna hef ég spurt sjálfan mig: Hvað vakir raunverulega fyrir ríkisstjórninni? Er hún að reyna að egna launafólk?