131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:16]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram hvernig þetta var lagt upp af hálfu Háskóla Íslands. Jafnframt hafa hinir tveir háskólarnir undirstrikað að þeir telji að það þurfi að koma til móts við þann kostnað sem þeir verða fyrir þegar kemur að innritun og skráningu stúdenta í háskólana. Svo einfalt er það. Þessu getur hv. þingmaður auðvitað innt rektorana eftir þegar þeir mæta á fund hv. menntamálanefndar.

Hæstv. forseti, meginmálið er að hér er um innritunargjöld að ræða, kostnað sem hlýst af skráningu. Hér er ekki um skólagjöld að ræða, við getum tekið þá umræðu síðar og eigum að gera það út frá mörgum grundvallaratriðum sem tengjast okkar ágæta menntakerfi. En hér er fyrst og fremst um innritunar-, skráningargjald að ræða þar sem er verið að koma til móts við kröfur og þarfir háskólanna. Um það snýst þetta mál og í frumvarpinu eru færðar fram röksemdir og þar eru tölur um það sem hér um ræðir. Ég ítreka að mér finnst það betri bragur að hafa á en að geta ekki rökstutt með hvaða hætti skráningargjaldið er fengið hverju sinni.