131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:34]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Núverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafði oft á orði í því sem ég hef kallað bæði villandi og falskan málflutning fyrir síðustu alþingiskosningar, vorið 2003, að þær áherslur sem Frjálslyndi flokkurinn setti fram í kosningabaráttunni um hvert við frjálslyndir vildum stefna í skattamálum væru ábyrgðarlausar með öllu, málflutningur sem setti allt á annan endann í þjóðfélaginu.

Frjálslyndir vildu breytingar á skattkerfinu með því að hækka persónuafsláttinn, þar með verulega hækkun skattleysismarka sem mundi bæta hag þeirra sem væru tekjulágir og auka þar með tekjujöfnun í skattkerfinu. Áherslur Frjálslynda flokksins um að bæta hag barnafjölskyldna í landinu með auknum skattafslætti í gegnum skattkerfisbreytingar voru einnig af stjórnarflokkunum taldar ábyrgðarlausar og lítt færar til aukinnar velferðar fyrir fjölskyldurnar í landinu. Þannig var hin ábyrgðarmikla umræða blekkingarmeistarans, eða eigum við að segja loddarans, sem nú ræður ríkjum á kvótalandinu bláa.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna örstutt í ræðu mína um fjárlögin haustið 2003, en þar segir:

„Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að stefna Frjálslynda flokksins í kosningabaráttunni var sú að leggja til tvennt í skattamálum, annars vegar að horfa til vanda barnafjölskyldna og koma með skattalagabreytingar sem dygðu þeim best sem hefðu mesta fjölskyldustærð og rétturinn væri barnanna og fylgdi fjölskyldunni og fjölskyldan gæti notað sér þann afslátt eða frádrag, hins vegar hækkun á persónuafslætti sem einnig hefði hækkað tekjur þeirra sem lægst hafa launin. […]

Þetta voru þær áherslur sem Frjálslyndi flokkurinn lagði til í kosningabaráttunni. Þess vegna er það alveg ljóst, virðulegi forseti, að sú stefna sem ríkisstjórnin keyrir á í skattamálum, að byrja á að lækka skatta þeirra sem skástar hafa tekjurnar, er algjörlega í andstöðu við stefnu okkar í Frjálslynda flokknum. Við teljum að það sé vitlaust forgangsraðað að fara svona í málin. Það er okkar niðurstaða og okkar skoðun.“

Þetta var sagt þá og þótti stjórnarliðum afar lítið til málflutnings okkar í Frjálslynda flokknum koma. Það má segja að á fjóshaugnum hanarnir hreyki sér hátt. Það var a.m.k. stundum sagt um þá sem virkuðu eins og oflátungar og það á vel við um stjórnarliðið að þessu leyti varðandi þann málflutning sem ég hef verið að vitna til.

Í gærkvöldi sendi miðstjórn ASÍ frá sér ályktun um kjara- og skattamál í tilefni af skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið telur að sé svigrúm fyrir hendi hefði átt að nýta tækifærið og auka tekjujöfnun í skattkerfinu. Tillögur Alþýðusambandsins um meiri hækkun skattleysismarka, lægra skattþrep á lágar tekjur og lækkun virðisaukaskatts á matvæli væru tekjujafnandi, andstætt tillögum ríkisstjórnarinnar um afnám hátekjuskatts, flata lækkun skattprósentunnar og afnám eignaskatta. Veruleg hækkun barnabóta er aftur á móti tekjujafnandi aðgerð og fagnar miðstjórn henni. Alþýðusambandið lagði þó til við stjórnvöld, að barnabætur yrðu greiddar til 18 ára aldurs í samræmi við hækkun sjálfræðisaldurs.

Alþýðusambandið hefur ítrekað kallað eftir samstarfi við stjórnvöld um mótun samþættrar stefnu í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum en stjórnvöld hafa ekki sýnt vilja til slíks samráðs. ASÍ mun því þurfa í samráði við aðildarfélög sín að endurskoða samskiptin.“

Á ársfundi ASÍ sem lauk nýverið var samþykkt eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ársfundur Alþýðusambands Íslands krefst þess að ríkisstjórnin og Alþingi standi betur vörð um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins og jöfnunarhlutverk velferðarkerfisins.

Ársfundur ASÍ skorar á ríkisstjórn og Alþingi að gæta hagsmuna lág- og meðaltekjufólks nú þegar boðað hefur verið að skattar verði lækkaðir um allt að 23 milljarða. Veruleg hækkun skattleysismarka, lægra skattþrep á lágar tekjur og lækkun virðisaukaskatts á matvæli eru skattkerfisbreytingar sem koma þeim sem eru með lægri og millitekjur að mestu gagni. Einnig skiptir miklu að koma betur til móts við barnafólk. Slíkt verður best gert með því að hækka barnabætur og draga úr tekjuskerðingum barnabótakerfisins.

Jafnframt þarf að gæta þess að skattalækkanir leiði ekki til þess að velferðarkerfið veikist, þvert á móti er nauðsynlegt að styrkja það. Þannig er unnt að nýta betur velferðarkerfið sem tæki til jöfnunar í samfélaginu, samhliða skattkerfinu. Í því sambandi minnir ársfundur ASÍ á ítarlegar og vel útfærðar tillögur sínar í velferðarmálum frá síðasta ári.“

Það er rétt í þessu sambandi, áður en lengra er haldið við að lesa upp úr þessari samþykkt, að minna á það að við í Frjálslynda flokknum tókum undir þá afstöðu sem ASÍ kynnti í velferðarmálum í bók sem það gaf út og kallaði „Velferð fyrir alla“. Við tókum mjög undir þá stefnumótun.

Það er líka rétt að minna á það, hæstv. forseti, að í þrjú ár höfum við í Frjálslynda flokknum reynt að lagfæra stöðu ellilífeyrisþega með því að flytja hér inn mál um tryggan lágmarkslífeyri sem gerði það að verkum að lífeyrir undir 50 þús. kr. skerti ekki bætur ellilífeyrisþega. Það mál hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá stjórnarliðum.

Með tillögunni sem ég var að lesa hér upp úr, ályktun frá ársfundi ASÍ um skatta- og velferðarmál, fylgdi svofelld greinargerð, með leyfi forseta:

„Á liðnum árum hefur skattbyrði þeirra sem eru með lágar og miðlungstekjur hækkað meira en þeirra tekjuhærri. Þetta gerist annars vegar vegna þess að aukinn kaupmáttur leiðir sjálfkrafa til aukinnar skattbyrði en ekki síður vegna inngripa stjórnvalda í skattkerfið.

Inngrip stjórnvalda hafa falist í því að láta persónuafsláttinn á stundum hækka minna en verðlag, lækka hátekjuskattinn og nú að lögfesta afnám hans. Einnig má nefna að síðast þegar skattprósentan var lækkuð, var persónuafslátturinn lækkaður sérstaklega, til þess að draga úr áhrifum skattalækkunarinnar á þá tekjulægri! Þessi þróun hefur leitt til þess að dregið hefur úr tekjujöfnun skattkerfisins.

Stoðir velferðarkerfisins hafa líka verið að veikjast. Slíka þróun má meðal annars merkja á sífellt vaxandi þjónustugjöldum í heilbrigðis- og menntakerfinu og einnig á miklum tekjuskerðingum í skatta- og almannatryggingakerfinu sem hafa komið illa við þá tekjulægri.

Veiking velferðarkerfisins og sú þróun að draga úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins hefur leitt til þess að sífellt stærri hluti af kaupmáttarauka þeirra sem eru með lægri og miðlungstekjur rennur að lokum í ríkissjóð.“

Það er algjörlega ljóst, og meira að segja hefur hæstv. fjármálaráðherra nefnt það sérstaklega sem jafnvel æskilega breytingu, að tekjuskattsgreiðendum hefur fjölgað hér á landi. Að sjálfsögðu gerist það þegar persónuafslátturinn heldur ekki raungildi sínu.

Það kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar við vorum að ræða hér skattamálin að 29 þús. manns með tekjur sem eru lægri en 100 þús. kr. á mánuði greiða samtals um 2 milljarða kr. í skatt. Varla trúi ég því að menn telji að 100 þús. kr. tekjur á mánuði og lægri séu ofrausn fyrir fólk til eigin ráðstöfunar.

Þetta sem ég var að lesa er að mestu leyti tekið upp úr samþykktum ASÍ á ársfundi nýverið. Þá mætti spyrja: Varla ætla forustumenn ríkisstjórnarinnar að dæma ASÍ-forustuna sem ábyrgðarlaust lið þó ASÍ hafi aðrar áherslur en ríkisstjórnin, eða hvað? Þannig var talað um þær tillögur sem við fluttum í kosningabaráttunni í Frjálslynda flokknum varðandi hækkun persónuafsláttar annars vegar og hins vegar það sem sneri að barnafjölskyldum í landinu. Þannig var málflutningur okkar dæmdur af stjórnaliðum sem var á svipuðum nótum og þær áherslur sem heildarsamtök launþega ASÍ hafa verið að flytja.

Það væri fróðlegt að heyra hvað varaformaður fjárlaganefndar, þjóðarsáttarmaðurinn hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, segir um þessa stefnu ASÍ, stefnu samtaka sem hann hefur jafnan hælt sem ábyrgðarmiklum samtökum sem hefðu sýnt fulla ábyrgð varðandi launastefnu og önnur mál í þjóðfélaginu og haft þar mikil áhrif, m.a. til þess að stuðla að stöðugleika í þjóðfélaginu.

Ég dreg þetta fram, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel ástæðu til þess að vekja athygli á því að hægt er að fara aðrar leiðir í skattamálum en ríkisstjórnin leggur upp með. Verið er að velja áherslur sem færa skattalækkanir í miklu meira mæli til þeirra sem hæst hafa launin með þeirri útfærslu sem hér er.

Við forustumenn stjórnarandstöðunnar reynum með sameiginlegum breytingartillögum okkar að bæta strax á næsta ári hag barnafjölskyldna með því að leggja til að ákvörðun um hækkun barnabóta komi strax til framkvæmda á næsta ári en verði ekki fjölnota kosningaloforð eins og ríkisstjórnin leggur til. Við leggjum einnig til að orð skuli standa um málefni öryrkja.

Fyrir ári sagði ég við 3. umr. fjárlaga um öryrkjamálið, með leyfi forseta:

„Fréttin af miklum áfangasigri öryrkja með samkomulagi við hæstv. ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála frá því í lok mars 2003 var uppsláttarfrétt sem vel dugði í kosningabaráttu eins og sjá mátti á síðum Morgunblaðsins. En nú reynir á hvort orð skuli standa hjá ríkisstjórn eina ferðina enn. Á þessu hausti“ — þ.e. haustinu 2003 — „hafa leiktjöld kosninganna fallið og á brókinni stendur ríkisstjórnin með svikin loforð og að orð skuli standa.“

Þessi varnaðarorð mín frá því í fyrra hafa sannarlega haldið gildi sínu, því miður. Á þessu hausti hafa leiktjöldin aftur fallið og á brókinni stendur ríkisstjórnin enn og aftur með svikin loforð. Auglýsingar Öryrkjabandalags Íslands þessa dagana á síðum dagblaðanna hafa ekki farið fram hjá landsmönnum. Þær eru kaldhæðnar og sýna svo ekki verður um villst hvernig ríkisstjórnin talaði fyrir kosningar og svo eftir kosningar, þegar allt var svikið. Nú standa málin þannig að öryrkjar hafa beðið í tæpt ár eftir að fá þá kjarabót sem gert var heiðursmannasamkomulag um nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar. Það var mál manna að samkomulagið hefði innsiglað kosningasigur Framsóknarflokksins í kosningunum vorið 2003 og var raunar viðurkennt, m.a. af þingmanni Framsóknar í Kastljósþætti í sjónvarpinu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra kvaðst eftir kosningar ætla að skipta samkomulaginu upp í áfanga þannig að 66% samningsins yrði uppfylltur á þessu ári og afgangurinn á næsta ári, en þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að efna samkomulagið að fullu.

Í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var 27. október sl. segir svo, með leyfi forseta:

„Ein mikilvægasta forsenda þess að þjóðfélag fái staðist er að fólk virði og haldi gerða samninga. Freistist æðstu stjórnvöld til að ganga gegn slíkri grundvallarreglu eru þau að bjóða heim þeirri hættu að almennir borgarar taki að haga sér eins. Engir samningsaðilar eru svo léttvægir að löglega kjörin stjórnvöld geti leyft sér að vanvirða samninga sína við þá. Samninga við öryrkja ber að efna af sömu ábyrgð og aðra samninga. Til þess standa bæði lög og almenn réttlætisvitund.“

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin ákveður að lækka skatta en á sama tíma er Landspítala – háskólasjúkrahúsi gert að spara 600 millj. kr. á næsta ári ofan í þær 700 millj. kr. sem átti að spara á þessu ári. Sparnaðurinn hefur í för með sér skerta þjónustu og aukinn kostnað sjúklinga ef hugmyndir um hækkun þjónustugjalda verða að veruleika. Fjárveitingar til spítalans hafa á föstu verðlagi nánast staðið í stað í nokkur ár á sama tíma og veruleg aukning hefur orðið á heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála. Þetta gerist þrátt fyrir miklar verðhækkanir á lyfja- og lækningavörum umfram forsendur fjárlaga, hækkun launatengdra gjalda vegna ákvarðana stjórnvalda, aukna eftirspurn eftir þjónustu spítalans m.a. vegna framfara í tækni og lyfjum og þess að fjölgað hefur í eldri aldurshópum þjóðarinnar. Allt þetta hefur haft neikvæð áhrif og getur haft áframhaldandi neikvæð áhrif á gæði þjónustunnar.

Fjárlögin valda því vonbrigðum þegar horft er til starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ljóst er að bygging nýs sjúkrahúss er ekki í forgangi. Í skýrslu nefndar heilbrigðisráðherra um uppbyggingu spítalans er áætlað að tæplega 37 milljarða þurfi til að byggja nýjan spítala frá grunni. Rekstur spítalans kostar um 27 milljarða á þessu ári. Sérfræðingar í lækningum og hjúkrun hafa lagt ríka áherslu á mikilvægi nýs spítala til að unnt sé að auka hagræðingu, en þeir eru líka reiðubúnir að skoða þann möguleika að áfangaskipta uppbyggingu sjúkrahússins.

Kostnaður við þær framkvæmdir sem þarf til að sameina starfsemi sjúkrahússins á einum stað án þess að nýr spítali verði byggður frá grunni er ekki hár sé miðað við rekstrarkostnað sjúkrahússins.

Vonast var eftir að kröfu um frekari sparnað á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi yrði aflétt. Ef fjárlög verða samþykkt eins og þau eru nú standa stjórnendur spítalans frammi fyrir þeim vanda að þurfa að skerða þjónustu enn frekar og segja upp fleira starfsfólki. Ríkisstjórnin þrengir að rekstri spítalans enn eitt árið. Nær væri að hætta við lækkun hátekjuskattsins á næsta ári og búa betur að þessari lykilstofnun íslenska heilbrigðiskerfisins. Hætt er við því að hinu metnaðarfulla starfi sem starfsfólkið hefur byggt upp, m.a. við sameiningu spítalanna og þeim góða árangri sem tölur sanna að hafi verið náð, verði alvarlega ógnað með frekari samdráttaraðgerðum.

Virðulegi forseti. Það er afar brýnt, og undan því getur stjórnarmeirihlutinn ekki vikið sér endalaust, að efla núverandi tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti með eðlilegum hætti sinnt lögbundnum og nauðsynlegum verkefnum sínum. Kostnaður sveitarfélaganna fer sífellt vaxandi vegna nýrra verkefna og laga sem valda nýjum álögum eða vegna þess að ríkið hefur ákveðið að minnka kostnaðarþátttöku sína í sameiginlegum verkefnum. Krafa fólks um þjónustu sveitarfélaga hefur aukist hin síðari ár. Auk þess hafa ný umhverfisviðhorf sjálfkrafa valdið auknum kostnaði, svo sem fráveitumál og friðlýsing landsvæða.

Um 70 sveitarfélög voru rekin með halla á sl. ári, m.a. af fyrrgreindum ástæðum, og einnig hefur vandi sumra sveitarfélaga vegna annarra þátta vaxið svo sem vegna aukins kostnaðar við rekstur grunnskólans og stóraukins kostnaðar vegna húsaleigubóta, t.d. á Ísafirði. Sveitarfélögin hafa verið að taka á sig aukin verkefni án þess að tekjustofnar hafi fylgt með og það verður að efla tekjustofna þeirra áður en þau taka við nýjum verkefnum. Til dæmis er líklegt að öldrunarmál og málefni geðfatlaðra færist í auknum mæli til sveitarfélaganna. Eldri fjárhagsvandi og ný verkefni verða ekki leyst á vegum sveitarfélaganna án nýrra tekjustofna eins og þessi umræða og margar fyrri umræður um fjárhagsvanda sveitarfélaganna hafa leitt í ljós.

Í nefndaráliti frá minni hluta félagsmálanefndar segir svo um fjárhagsvanda sveitarfélaganna, með leyfi forseta:

„Bráðavanda nokkurra sveitarfélaga á yfirstandandi ári hefur verið mætt með 400 millj. kr. framlagi, en á engan hátt er í fjárlögunum gert ráð fyrir að mæta knýjandi fjárhagsvanda sveitarfélaganna en halli af rekstri þeirra nam 2,8 milljörðum kr. á síðasta ári. Þó liggur fyrir sameiginleg viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins, en 3. töluliður hennar fjallar sérstaklega um breytingar á tekjuskiptingu og aukin framlög í jöfnunarsjóð. Þá leiða áform ríkisstjórnarinnar um 1% lækkun tekjuskatts og lækkun hátekjuskatts til 93 millj. kr. tekjutaps jöfnunarsjóðs sem í engu er bætt og gangi hugmyndir eftir um 4% lækkun á kjörtímabilinu verður jöfnunarsjóður af 300 millj. kr. Verði ekki tekið á þessum brýnu úrlausnarefnum fyrir afgreiðslu fjárlaga eru hugmyndir um eflingu sveitarstjórnarstigsins í öngstræti.“

Sveitarfélögin í landinu eru 101 og er það stefna stjórnvalda að fækka þeim í liðlega 40. Í þeim tilgangi var sett á fót þverpólitísk sameiningarnefnd sveitarfélaga þar sem tveir flokkar sem eiga sæti á Alþingi voru útilokaðir frá þátttöku, þ.e. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn. Það er ámælisvert að ráðuneyti félagsmála skuli standa svo ólýðræðislega að verki. Gerðar hafa verið tillögur um sameiningu sveitarfélaga og eru tillögurnar allar utan höfuðborgarsvæðisins. Það er mikill galli þar sem augljóst er að mestur sparnaður mundi nást við sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í tillögum sameiningarnefndar er nefnt að öflugri sveitarfélög verði betur í stakk búin til að uppfylla kröfur til sveitarstjórnarstigsins, atvinnulífsins og að taka að sér ný verkefni. Það er eins og það eigi að leysa vanda landsbyggðarinnar með því einu að sameina sveitarfélögin.

Því fer fjarri og nefna má að sveitarfélög sem hafa staðið utan við sameiningar, eins og Tálknafjörður, hafa ekki staðið verr að vígi en byggðarlögin Patreksfjörður og Bíldudalur sem gengu inn í Vesturbyggð. Vandi sjávarbyggðanna felst að mestu leyti í þeim höftum sem aðalatvinnuvegir landsbyggðarinnar eru hnepptir í af stjórnvöldum sem er kvótakerfi bæði til sjávar og sveita.

Fólk á landsbyggðinni er almennt hlynnt þeim möguleika að sameina sveitarfélög, en á hinn bóginn er lítill sem enginn áhugi á að taka við auknum verkefnum fyrr en núverandi tekjuskipting hefur verið leiðrétt. Sveitarfélögin hafa ekki fengið leiðréttingar á tekjustofnum til þess að annast núverandi verkefni. Sveitarfélögin voru rekin á síðasta ári með 2,8 milljarða halla eins og áður sagði. Þriðjungur sveitarfélaga glímir við alvarlegan rekstrarvanda og stendur vart undir núverandi verkefnum. Það er vafasöm pólitík að tengja fyrirhugaða sameiningu sveitarfélaga við reikular yfirlýsingar um yfirtöku á hinum ýmsu verkefnum án tekna. Við frekari sameiningu er sveitarfélögunum ætlað að setja á fót velferðarstofu og yfirtaka málefni fatlaðra, aldraðra og heilsugæslu. Engar fréttir eru um hvaða tekjur eigi að fylgja.

Það er hins vegar ljóst hvernig á að afla tekna til að fjármagna hluta af rekstrarvanda háskólanna. Það á að gera með því sem rétt er að kalla skólagjöld á nemendur.

Það er vissulega jákvætt að lækka greiðslubyrði námslána innan hvers árs úr 4,75% í 3,75% af stofni útsvars og fjármagnstekna. Breytingin kallar á 300 millj. kr. hækkun á framlögum í Lánasjóð íslenskra námsmanna og er gert ráð fyrir því í fjárlögum. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að hækkun á skráningargjöldum sem brátt fara að teljast skólagjöld í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, auka álögur á nemendur um 140 millj. kr. í háskólunum samanlagt á næsta ári. Og það er ólánshæft af því þær 45 þús. kr. sem hverjum nemanda er ætlað að greiða hækka um 40% milli ára (Gripið fram í: Vegna þess að það eru ekki skólagjöld.) teljast ekki skólagjöld eins og ríkisstjórnin setur málið fram. (Gripið fram í: Skólagjöld eru lánshæf.)

Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að eins og málið snýr að sérhverjum nemanda eftir þessa miklu hækkun þarf hann að verja u.þ.b. einum þriðja af þeim tekjum sem hann má afla án þess að fá skerðingu á námslánum í þessa einu gjaldtöku því að vitanlega þarf nemandinn að greiða skatta og skyldur til þess að geta greitt skráningargjöldin.

Ég tel að hér sé í upphæð komið alveg að þeim mörkum að hækka verði tekjuviðmið hvers nemanda um a.m.k. 100 þús. kr. áður en til skerðingar á námslánum kemur og jafnframt er full þörf að ákveða að þetta gjald verði lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Einn er sá atvinnuvegur á landi hér sem enn þá er ekki háður neinum kvótum og er í örum vexti. Það er ferðaþjónustan. Á þessu ári stefnir í að hingað komi að jafnaði þúsund ferðamenn á dag alla 365 daga ársins. Líklegt er að á næsta ári verði erlendir ferðamenn yfir 400 þús. og að innan 10 ára verði þeir orðnir yfir 1 millj. á hverju ári. Á þessu ári er líklegt að ferðaþjónustan taki inn u.þ.b. 14% allra gjaldeyristekna. Hún er enn stærri atvinnuvegur en stóriðjan í landinu og svo verður jafnvel áfram ef vel tekst til.

En hvað þarf til þess að svo geti orðið? Jú, byggðin í landinu til sjávar og sveita þarf að halda velli ef við ætlum, sem reyndar verður nauðsyn, að taka á móti 1 millj. ferðamanna og dreifa henni um sögu- og byggðasvæði landsins. Þetta þurfum við að hafa í huga við mótun fjárlaga og við framkvæmd byggðastefnu. Það verður mikils virði að halda landinu í byggð fyrir framtíðina, m.a. til að hafa afþreyingu fyrir 1 millj. ferðamanna árlega. Kvótakerfið má ekki rústa byggðina. Vegakerfið verður að gera á sem stystum tíma að uppbyggðum láglendisvegum, við verðum að fara í gegnum fjöll og yfir firði til að fá öruggar og stuttar ferðaleiðir til allra flutninga. Vetrartíminn getur líka verið sölutími til erlendra ferðamanna ef allir komast ferða sinna örugglega og daglega.

Við 1. umr. fjárlaga í byrjun október sl. fór ég nokkrum orðum um verklegar framkvæmdir, m.a. í vegamálum og um fyrirhugaðan niðurskurð á fé til samgöngubóta. Efnislega voru orð mín á þessa leið:

Miklar framkvæmdir fara nú fram á Miðausturlandi sem munu vonandi nýtast því svæði vel í framtíðinni, fjölga þar störfum ásamt því að efla mannlíf. Vonandi mun íbúum fjölga þar, atvinnuástand verða gott um nokkurra ára skeið og batna enn þegar álverið verður komið í fullan rekstur. Margfeldisáhrif munu fylgja slíkri atvinnustarfsemi. Nauðsynlegt var einmitt að efla atvinnustig á Austfjörðum. Ánægjulegt er að á Austfjörðum skuli hafa verið staðið fyrir vegaframkvæmdum eins og göngunum á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Þar næst u.þ.b. 30 km stytting og öruggur vegur. Göng í gegnum Almannaskarð eru einnig svo til klár. Þessar framkvæmdir eru fagnaðarefni, þarna er í báðum tilfellum verið að stytta vegalengdir og í raun og veru að komast á það sem ég hef kallað „varanlega láglendisvegi“ um landið.

Ég er mjög hlynntur slíkum framkvæmdum og minn flokkur hefur beinlínis sett það fram í stefnumörkun að það væri það sem menn ættu að stefna að á landi hér, að komast undir erfiða fjallvegi og yfir firði og stytta þannig vegalengdir á milli landsvæða og staða og einnig almennt inn á aðalþjónustukjarna landsins á suðvesturhorninu. Til þess ættu menn að horfa alveg óhikað. Hér er um að ræða mjög arðsamar og varanlegar framkvæmdir fyrir framtíðina. Til þess ættum við að horfa sem varanlegra fjárfestinga sem munu skila okkur miklum arði í framtíðinni.

Það hversu vel hefur gengið við þessar vegaframkvæmdir á Austurlandi sýnir okkur enn á ný hvaða arðsemi varanlegar samgöngubætur geta gefið. Við eigum að taka þá stefnu að skoða hvernig áframhald eigi að vera að þessu leyti.

Virðulegur forseti. Fyrir nokkuð mörgum árum, 1996, voru tekin í gagnið jarðgöng á Vestfjörðum sem fóru undir Breiðadals- og Botnsheiðar. Þau tengdu saman byggðirnar á Vestfjörðum. Síðan gerðist nánast ekkert í jarðgangagerð í fleiri ár, að fráteknum Hvalfjarðargöngum sem voru unnin í einkaframkvæmd og hafa vissulega bætt mjög mikið almennt í samgöngum hér á landi. Þær áætlanir sem stjórnvöld hins vegar höfðu uppi stöðvuðust nánast þar til hafist var handa við jarðgöng á Austfjörðum, þ.e. í nokkur ár. Ég ætla rétt að vona, virðulegur forseti, að núna standi ekki til að láta annað slíkt tímabil koma á eftir þessum varanlegu framkvæmdum sem verið er að gera á Austfjörðum og að það dragist aftur í mörg ár að hefjast handa við frekari jarðgangagerð.

Þenslan sem verið er að tala um að sé e.t.v. eða muni myndast vegna framkvæmdanna á Austurlandi er jú þar og landsvæðið mun vonandi njóta góðs af því. Vafalaust mun suðvesturhornið sem einn aðalþjónustukjarni landsins líka njóta góðs af því sem og fjármálastarfsemin sem á undirstöðu sína á suðvesturhorninu.

Ég tel afar mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því að þenslan sem talað er um í stefnumótun ríkisstjórnarinnar er ekki til staðar á stórum svæðum landsins. Ég fullyrði, virðulegur forseti, að það er engin þensla í Norðvesturkjördæmi. Að vísu eru að fara af stað framkvæmdir í syðsta hluta kjördæmisins, í Norðuráli í Hvalfirði, sem munu hafa einhver áhrif á svæðinu syðst í Norðvesturkjördæminu. Þar með er það upptalið.

Þess vegna vara ég sérstaklega við því að farið verði í að draga saman framkvæmdir og það látið bitna á landshlutum þar sem engin þensla á sér stað, landshlutum sem þurfa á uppbyggingu að halda. Minna má á vegakerfið á Vestfjörðum í þessu sambandi. Þar hefur vissulega margt gerst á undanförnum árum en því miður erum við enn langt á eftir. Það er svo margt sem þarf að gera til að koma okkur í eðlilegt akvegasamband innan fjórðungs og út úr fjórðungnum.

Hið sama á að mínu viti við t.d. um norðausturhorn landsins. Þar er auðvitað mikil þörf á að lagfæra vegi. Ég vara við því alveg sérstaklega og tjái afstöðu mína þannig að ég mun leggjast eindregið gegn niðurskurði framkvæmda að því er varðar þjóðvegakerfið í Norðvesturkjördæmi. Ég hafna því alfarið og skora á hæstv. samgönguráðherra að standa vaktina. Hann er einnig með ferðamálin á sínum snærum sem eru vaxandi atvinnuvegur, eins og ég gat um áður.

Að lokum þetta, virðulegi forseti: Fólkinu í landinu verður að tryggja þá sjálfsögðu þjónustu að eiga jafnan og greiðan aðgang að fjarskiptakerfum landsmanna, bæði tölvutengingum sem tryggja háhraðasamband og gagnaflugninga og í farsímakerfinu. Þessum málum verða stjórnvöld að koma í lag — undan því verður ekki vikist í nútímaþjóðfélagi.