131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:37]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessu er varla svarandi. Hv. þingmaður kemur með þau ræðuhöld að ég sakni veraldar sem var, ég vilji hafa allt í höftum og skömmtunum, eins og ég beri ábyrgð á því stjórnmálafyrirkomulagi og því kerfi sem þróaðist hér upp úr kreppunni 1930 og hélt áfram alveg fram á 8., 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hverjir voru lengstum í ríkisstjórnum á Íslandi á árunum frá 1930 og hreinlega alveg fram til dagsins í dag? Voru það vinstri menn og sósíalistar? Nei, því miður ekki. Þeir komust einstöku sinnum inn í ríkisstjórn en allt of sjaldan, gerðu að vísu góða hluti þá. Það voru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem auðvitað stjórnuðu landinu á öllum þessum kreppu- og skömmtunartímum. Svo koma menn og belgja sig hér út og segja að þeir hafi opnað, þeir hafi breytt, eins og þeir hafi tekið við eftir áratugalangar vinstri stjórnir, Davíð Oddsson & Co. 1991. Það var bara ekki þannig. (Gripið fram í: Nú?)

Svo að það sé t.d. upplýst sat ég í þeirri ríkisstjórn sem opnaði fyrir frjáls gjaldeyrisviðskipti til Íslands. Það höfðu sjálfstæðismenn ekki gert. Þeir höfðu haft nægan tíma til þess á 9. áratug síðustu aldar, setið í ríkisstjórn frá 1983–1988. Þeir höfðu ekki létt gjaldeyrishömlunum af. Nei, það gerði vinstri stjórnin sem sat árin 1988–1991. Hún opnaði fyrir frjáls viðskipti með gjaldeyri þannig að auðvitað stenst þetta ekki ef menn kunna söguna. En mönnum þykir þetta skemmtileg rökræða út í loftið án þess að hafa þó staðreyndirnar á takteinum sínum.

Ég tala ekki fyrir einhverri ofboðslegri ofskattlagningu en gjarnan kemur Svíþjóð við sögu hjá hægri mönnum. Þeir eru búnir að syngja þann söng áratugum saman að Svíþjóð sé að fara á hausinn. Svo kom hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og talaði um hvað það væri skelfilegt að það fyndist enginn ríkur maður í Svíþjóð því að þeir væru allir hraktir úr landi vegna skattpíningar. (EOK: … borga skattana.) Svíþjóð er ekki farin á hausinn, hv. þingmaður. Það gengur bara býsna vel í Svíþjóð.