131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:21]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég skil muninn á skilagjaldi og úrvinnslugjaldi er úrvinnslugjaldi ætlað að standa straum af því að farga eða endurnýta tilteknar umbúðir. Það leggst þess vegna ofan á vörur, hækkar verð þeirra eftir atvikum, eða lækkar í þeim tilvikum sem hæstv. ráðherra rakti hérna áðan.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hvort lagt hefði verið mat á hvaða áhrif þessar álögur eða breytingar á álögum muni hafa á þróun neysluvísitölu ef einhverjar.

Í öðru lagi langaði mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvað ylli því að sjávarútvegurinn fær þarna enn frekari frest til að koma málum sínum í lag. Ég stóð í þeirri trú — hugsanlega er það misskilningur og rangminni hjá mér — að sjávarútvegurinn hefði fengið allrúman tíma til að búa sig undir þær breytingar sem margir hafa barist fyrir varðandi förgun veiðarfæraleyfa.