131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[11:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að spurt sé hvort fjölbreytt flóra fjármálafyrirtækja skipti yfir höfuð einhverju máli. Í mínum huga gerir hún það. Það skiptir verulegu máli að neytendur í þessu landi hafi val hvað varðar fjármálafyrirtæki eins og aðra hluti á markaði. Ef löggjafinn getur staðið vörð um fjölbreytnina á löggjafinn að gera það. Það var almennur vilji þingsins hér í fyrra þegar fjallað var um þessi mál að standa vörð um 5% þakið í atkvæðavægi einstakra aðila og ef farið er að ógna þessari lagaklásúlu er það skylda hæstv. viðskiptaráðherra að standa vörð um hana. Ef það þarf að skerpa á henni á hæstv. viðskiptaráðherra að gera það.

Kjarni málsins frá mínum bæjardyrum er sá að sparisjóðirnir hafa hingað til verið annarrar náttúru en viðskiptabankarnir. Þeir sinna einstaklingum, eru sprottnir upp úr félagslegu umhverfi, hafa borið félagslega ábyrgð og mér finnst skipta verulegu máli að almenningur hafi á þessum tímum, þessum umrótatímum á fjármálamarkaði, tækifæri til að velja fyrirtæki sem vaxið er upp úr þessum jarðvegi, sem er þeirrar náttúru sem sparisjóðirnir eru.

Mér finnst hættumerki í gangi hjá viðskiptabönkunum sem eru í óðaönn að breytast í fjárfestingarbanka. Það hefur verið gagnrýnt á háværan hátt þannig að ég tel að við sem stöndum að lagasetningu í þessu landi þurfum að standa vörð um það að flóran sé sem fjölbreyttust.

Hér mæra hv. þingmenn stjórnarflokkanna það félagslega umhverfi og þessa félagslegu ábyrgð sem sparisjóðirnir eru upphaflega sprottnir upp úr. Mér finnst þá skipta verulegu máli að þessir hv. þm. sinni þeim skyldum sem þeim ber hér í þessum sölum því að sannleikurinn er auðvitað sá að hin félagslega ábyrgð er á undanhaldi. Ógnanirnar sem standa á sparisjóðina koma vegna peningavæðingar samfélagsins. Fyrirtæki, félög og einstaklingar eru að reyna að sölsa undir sig það sem þeim ekki ber. Hlutafélagavæðingin sjálf býður líka heim þeirri hættu að sparisjóðirnir verði gleyptir af stóru fiskunum i sjónum.