131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:06]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er skemmtilegt að hv. þingmaður haldi áfram spaugsyrðum sínum og virðist ekki vilja taka þátt í efnislegri umræðu. Ég hélt að við ættum það sameiginlegt að vilja viðhalda stöðugleikanum.

Í ræðu minni, svo ég endurtaki það enn á ný, reyndi ég að færa rök fyrir því að fjárlagafrumvarpið væri ekki af þeirri gerðinni að það viðhéldi stöðugleikanum heldur skapaði meiri óvissu í efnahagsmálum. Það vill svo til, hv. þingmaður, að Seðlabankinn er sammála mér í þessu mati. Það væri ráð fyrir hv. þingmann, áður en hann heldur ræðu sína á eftir, að fara yfir Peningamál, hið ágæta rit Seðlabankans, og segja til um hvað hann telur rangt í því. Ég er tilbúinn til að fara í þær vangaveltur með hv. þingmanni, um hvort einhverju geti skeikað í þeirri áætlun.

En það sem skiptir meginmáli þegar við erum að ræða fjárlög er spurningin: Eru fjárlögin í takt við raunveruleikann? Um það var ég að tala, t.d. varðandi heilbrigðismálin. Þar er því miður skilinn eftir vandi stofnana. Það leysir engan vanda að horfa fram hjá honum eða vilja ekki um hann ræða. Það verður að taka á honum jafnóðum og hann kemur upp. Ef ætlunin er að skerða þjónustu stofnananna þá á Alþingi að taka um það ákvörðun. Það á ekki, ár eftir ár, að samþykkja röng fjárlög. (EOK: Það er 8% aukning.) Við vitum það, hv. þingmaður, að ein ástæðan fyrir því að menn bera ekki virðingu fyrir fjárlögum er að menn vita það, og hv. þingmaður líka, að fjárlögin hafa ekki verið hið marktæka plagg sem þau ættu að vera. 8% aukning hér og 8% aukning þar. Það er alveg hárrétt að heildarútgjaldaaukningin er um 8% og heildaraukning tekna svipuð. Það er ekki vandamálið, þegar menn teikna upp eitthvað annað en raunveruleikann. Málið snýst um að við höldum okkur við raunveruleikann og látum fólk taka mark á fjárlögunum en séum ekki bara að skemmta okkur. Plaggið á að vera alvarlegt, grafalvarlegt, hv. þingmaður, vegna þess að við þurfum að tryggja stöðugleikann áfram.