131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[14:05]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þær umræður sem hér hafa farið fram og hafa verið ákaflega málefnalegar undirstriki fyrst og fremst alvöru þessa máls, bæði hvað varðar hörpudiskinn og eins innfjarðarrækjuna. Ég get tekið sem dæmi að hér kom fram hver heildarkvótinn í úthafsrækjunni er á yfirstandandi fiskveiðiári og það svarar til þess að þegar best lét á síðasta áratug var innfjarðarrækjan u.þ.b. helmingurinn af þeirri úthlutun. Hér er um að ræða gífurlega mikla hagsmuni.

En það er ástæða til að árétta það sem ég nefndi áðan, þau vandræði sem við stöndum núna frammi fyrir varðandi innfjarðarrækjuna og hörpudiskinn stafa náttúrlega af þessum umhverfisbreytingum, varðandi hörpudiskinn sérstaklega, líka sníkjudýr eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hér. Það er ástæða til að vekja athygli á því hvað þessir hlutir gerast hratt. Við stöndum kannski eitt haustið í bullandi rækjuveiði og allt gengur vel og menn hafa ekki ástæðu til að ætla annað en að allt muni ganga vel. Þá fara menn að taka eftir breytingum. Það var mat Hafrannsóknastofnunar í maí í vor til að mynda að í Arnarfirðinum væri rækjustofninn í sögulegu hámarki. Síðan eru gerðar rannsóknir í október og þá er niðurstaðan sú að ekki sé hægt að leyfa rækjuveiðar þennan veturinn. Við sjáum með öðrum orðum hvað þessir hlutir gerast gríðarlega hratt og það er engin ástæða til annars en að undirstrika það.

Ég held að það sé rétt sem hér hefur verið sagt að auðvitað verðum við að laga umhverfið þannig að við getum einhvern veginn brugðist við þegar svona aðstæður verða. Og það eru þær breytingar sem við höfum einmitt verið að gera á lagaumhverfinu. Við höfum verið að gera það þannig að þegar aðstæður koma upp eins og nú í innfjarðarrækjuveiði, eins og varðandi hörpudiskinn, er það þannig núna í fyrsta skipti að við erum búin að breyta lögunum þannig að það er hægt að úthluta aflaheimildum í öðrum tegundum strax til að koma til móts við þessa báta. Þegar um er að ræða aðstæður eins og við erum núna að sigla inn í — það er miklu varanlegra en áður — höfum við líka þessi úrræði.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að hvetja til þess að tiltækum úrræðum sé beitt til að vernda útgerðina og þá atvinnustarfsemi sem þarna er til að menn geti síðan haldið áfram með aðra atvinnustarfsemi í þessum byggðarlögum. Þetta er gífurlega mikilvæg atvinnugrein í þeim byggðarlögum sem um er að ræða, hvort sem um er að ræða hörpudiskinn í Breiðafirði eða innfjarðarrækjuveiðina víða um norðanvert landið.