131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:47]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki hefur reynst vera pólitískur vilji til að leysa það sem menn kalla fortíðarvanda Byrgisins. Hv. þingmaður fór alveg rétt með alla hluti varðandi þetta. En ég ítreka að sjálfsagt er að halda áfram að athuga hvort til er flötur á málinu til að gera eitthvað og ég er reiðubúinn til þess.

Hins vegar langar mig til að ræða um annað við hv. þingmann, vegna þess að hann eyddi stórum hluta ræðu sinnar í að fjalla um skattalækkanir. Ég vil minna hann á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist mjög harkalega gegn hátekjuskatti, eins og sjá má í ótal samþykktum á landsfundum flokksins og formannaráðstefnum, o.s.frv. Baráttan fyrir því að afnema hann hófst fyrir löngu, hefur staðið árum saman og er sennilega jafngömul skattinum. Hér er því um mikið baráttumál Sjálfstæðisflokksins að ræða, sem ég vona að hv. þingmaður kannist við, en það er fagnaðarefni að hátekjuskatturinn skuli nú vera að hverfa.

Í öðru lagi erum við að framfylgja stefnu sem við sögðum frá fyrir kosningar og lögðum þá nákvæmlega fyrir. Við töldum og teljum enn að það sé alrangt að hegna mönnum með sérstökum skatti, mönnum sem þéna 350 þús. kr., eins og t.d. allir togarasjómenn Íslands. Við teljum það rangt og höfum alltaf verið hreinir og beinir í því.

Herra forseti. Hv. þingmaður má vita að við erum að framfylgja þessari stefnu eins og við sögðumst ætla að gera. Við höfum talað um prósentur. Nú talar hv. þingmaður um að hann telji réttara að fara í krónutölulækkun. Þá er spurningin, herra forseti: Telur hv. þingmaður að nota eigi krónutöluna þegar við lækkum skatta? En hvað þegar við hækkum skatta, á þá líka að nota krónutöluna? Á þá að hækka jafnt í krónutölu á hvern mann? Eða hvaða aðferð vill hv. þingmaður viðhafa þegar sköttum er breytt?