131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:08]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í kosningabaráttunni, þegar hæstv. forsætisráðherra var að berjast fyrir því að ná inn á þing með fylgið niðri í 8% í Reykv. n. þá talaði hæstv. forsætisráðherra aldrei um samþykkt ríkisstjórnarinnar. Þá talaði hann um samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands, um samning sem birtur var öllum almenningi í fjölmiðlum þar sem hver og einn öryrki gat lesið sér til nákvæmlega um krónutölu þeirra kjarabóta sem hæstv. forsætisráðherra ætlaði að færa þeim þá um jólin. Þær kjarabætur komu aldrei nema að tveimur þriðju. Það er því ekki nema von að spurt sé hvort ekkert sé að marka samninga sem gerðir eru við ríkisstjórn Íslands og birtir alþjóð í fjölmiðlum lið fyrir lið hvernig koma skuli til framkvæmda. Það þýðir ekki, hæstv. forsætisráðherra, að koma hér og tala allt í einu bara um samþykkt ríkisstjórnarinnar. Þetta var samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands um kjör öryrkja (Forseti hringir.) og þá kjarasamninga á að virða eins og aðra kjarasamninga hvað sem líður samþykktum ríkisstjórnarinnar.