131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:49]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal með glöðu geði hætta að þakka hv. þingmanni fyrir sjálfsagða hluti, en maður er orðinn vanur því að telja sig þurfa að þakka fyrir þegar menn bregðast með eðlilegum og sjálfsögðum hætti við beiðnum minni hluta. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað eigum við ekki að vera að þakka fyrir sjálfsagða hluti, eins og það að halda fund í nefnd og kalla til aðila þegar eftir því er óskað.

Það kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þjóðhagsspá Seðlabankans væri sett fram áður en kemur til breytinga á stýrivöxtum, og það er alveg hárrétt. En ég hélt þó að hv. þingmaður hefði verið á sama fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar og ég, þegar fulltrúi Seðlabankans sagðist telja að þau tæki sem Seðlabankinn hefði bitu það seint, eða færu að virka það seint að varla væri við því að búast að þetta hefði mikil áhrif á árinu 2005, og ég vona að fleiri nefndarmenn en ég hafi heyrt þetta.

Hvað það varðar að efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki getað sent frá sér álit eftir að Seðlabankinn var þar í heimsókn vil ég benda hv. formanni nefndarinnar á að ekki vafðist það fyrir minni hlutanum. Minni hlutinn skilaði hér inn nefndaráliti um stöðu mála eftir að Seðlabankinn hafði verið í heimsókn og það vafðist ekkert fyrir honum og því vorkenni ég ekki meiri hlutanum að endurskoða álit sitt og senda fjárlaganefnd, þegar svona mikil breyting hefur orðið á forsendum fjárlaga.

Spurningin er: Eigum við að afgreiða fjárlög snemma og vitlaus, eða eigum við að reyna að afgreiða þau tiltölulega seint og eins rétt og mögulegt er? Ef ég á að velja leið þá mundi ég velja þá leið að reyna frekar að taka lengri tíma, vanda mig og skila lögunum frá mér réttum, þannig að þeir sem eftir þeim eiga að fara sýni þeim virðingu og fari eftir þeim.