131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:06]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði einmitt að tala einungis um fundarstjórn forseta og ekkert annað. Ég held reyndar að flestir hafi gert það sem hér hafa talað. Ég er afar ósátt við túlkun hæstv. forseta á því hversu oft ráðherra megi tala í umræðum sem þessum og er hrædd um að hæstv. forseti hafi gengið örlítið langt í því að leyfa ráðherrum að hafa vald umfram það sem þeir hafa í raun og veru leyfi til.

Hæstv. forseti las upp úr stjórnarskránni, 51. gr. Þar segir:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa.“

Ég held að hæstv. forseti hafi alveg gleymt því í túlkun sinni að kynna sér 3. mgr. 50. gr. þingskapa þar sem segir:

„Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn.“

Ég er því hrædd um að hæstv. forseti þurfi að kynna sér betur þingsköp Alþingis áður en hann gefur út túlkanir af þessu tagi. Ég held að nóg sé komið af því að hæstv. ráðherrar hafi meiri völd en ástæða er til samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum. Ég bið forseta að leiðrétta mig ef ég fer rangt með ákvæði þingskapa að þessu leyti.